„Þetta ætti ekki að vera okkur ofviða“

Sýrlenskir drengir á flótta.
Sýrlenskir drengir á flótta. AFP

Kerfið hér á landi þegar það kemur að kemur að móttöku hælisleitenda er of flókið og ekki hannað með hagsmuni barna að leiðarljósi. 79 börn komu hingað til lands á síðasta ári í hælisleit. Þar af voru sjö þeirra fylgdarlaus, þ.e. undir átján ára aldri og án fylgdar foreldris eða fjölskyldu.

Þetta er meðal þess sem kom fram í erindi Guðríðar Láru Þrastardóttur, héraðsdómslögmanns og talsmanns hælisleitenda hjá Rauða krossi Íslands á málþingi UNICEF á Íslandi og lög­fræðisvið Há­skól­ans á Bif­röst um flótta­börn sem koma til Íslands og stöðu þeirra sam­kvæmt Barna­sátt­mála Sam­einuðu þjóðanna sem fram fór í gær. 

Fyrri frétt mbl.is: Brotið á réttindum fylgdarlausra barna

„Þetta ætti ekki að vera okkur ofviða. Jafnvel þó að þetta hafi verið metár í fyrra er þetta enginn gríðarlegur fjöldi,“ sagði Guðríður og nefndi að fyrstu tíu mánuði síðasta árs hafi 23.300 börn sótt um hæli í Svíþjóð.

Vandamál kerfisins þrískipt

Þeir sem fara með málefni barna í hælisleit eru Útlendingastofnun, sveitarfélögin, barnaverndaryfirvöld og Rauði krossinn. Að mati Guðríðar eru vandamál kerfisins þegar það kemur að móttöku barna í hælisleit þrískipt, þ.e. óskýr verkaskipting, skortur á samhæfingu og skortur á þekkingu og reynslu.

Að sögn Guðríðar átti skipulagið upphaflega að vera þannig að Útlendingastofnun ætti að veita neyðarþjónustu þegar fólk kemur hingað til lands í 10 til 15 daga. Síðan myndu sveitarfélögin taka við. „En það eru til dæmi þar sem að mál fólks eru hjá Útlendingastofnun á annað ár,“ sagði Guðríður. Hún sagðist með þessu ekki vera að gagnrýna Útlendingastofnun en sagði að vandamálið væri að hjá sveitarfélögunum þar sem væri ákveðin tregða að taka á móti fleira fólki.

„Raunveruleikinn er sá að Útlendingastofnun skaffar ekki félagsþjónustu eins og sveitarfélög,“ sagði Guðríður og bætti við að starfsmenn Útlendingastofnunnar væru oft í erfiðri stöðu þegar þeir þurfa að skipa sveitarfélögum að taka á móti fólki.

„Þetta er stjórnsýslulega flókið kerfi og ekki hannað með hagsmuni barna að leiðarljósi,“ sagði Guðríður og bætti við að hennar tilfinning væri að fólk væri almennt ánægðara með þjónustu frá sveitarfélögunum en Útlendingastofnun. „En biðin eftir því að komast í þjónustu hjá sveitarfélögunum er alltof löng.“

„Dreift tilviljanakennt út um allt“

Þegar að fylgdarlaus börn koma hingað til lands er það barnaverndaryfirvöld þess sveitarfélags sem viðkomandi barn sækir um hæli í sem tekur við máli þess. „Ef þau óska til dæmis eftir hæli strax á Keflavíkurflugvelli er það barnaverndaryfirvöld á Suðurnesjum sem taka við þeim,“ útskýrði Guðríður.

„Þar sem að þetta voru bara sjö börn á síðasta ári sjá það allir að sérhæfingin og reynslan verður engin ef þetta er hjá mögum stofnunum. Það væri betra ef aðeins ein barnaverndaryfirvöld sæju um þetta heldur en að þessu sé dreift tilviljanakennt út um allt,“ sagði Guðríður og bætti við að það komi verulega niður á börnunum hvað verkaskipting barnaverndaryfirvalda og Útlendingastofnunnar er óskýr. „Hvor sem ber ábyrgð þá verður að útvega barninu öruggan stað, liðveislu og stuðning strax frá fyrsta degi. En það er því miður ekki þannig.“

Búa við aðstöðuleysi á mörkum iðnaðarhverfis

Nefndi Guðríður sem dæmi að þrjú fylgdarlaus ungmenni hafi dvalið í móttökumiðstöð í Bæjarhrauni frá áramótum, innan við fullorðið fólk í hælisleit. „Við skynjum það vandamál enn og aftur að verkaskipting milli barnaverndaryfirvalda og Útlendingastofnunnar er ekki skýr og enginn tekur ábyrgð á þessu. Biðin eftir húsnæði, skólavist og heilbrigðisþjónustu er of löng.“

Að sögn Guðríðar er engin aðstaða fyrir börn í móttökustöðinni á Bæjarhrauni. Herbergin eru ekki slæm en þar er ekkert leiksvæði og er Bæjarhraunið á mörkum iðnaðarhverfis. „Það er ekki hægt að fara út í garð að leika eða ganga í skóla í nágrenninu. Það var alvarlegt í ljósi þess að þau eru sjaldan í skóla og þetta verður eini staðurinn sem þau geta verið á. Þetta veldur gríðarlegu álagi á börn og foreldra og ekki síst aðra hælisleitendur.“

Að mati Guðríðar eiga fylgdarlaus börn ekki að deila húsnæði með fullorðnu fólki en það gerist því að það er ekkert fyrirfram mótað úrræði þegar það kemur að fylgdarlausum börnum í hælisleit hér á landi. Sagði hún að frekar þyrfti að útvega fylgdarlausum börnum fósturfjölskyldu eða sjálfstæða búsetu með stuðningi.

Börn sem koma hingað til lands til að sækja um vernd þurfa að fara í sóttvarnarskoðun en það er skilyrði skólavistar. Biðin eftir því er fjórar til sex vikur en það er aðeins einn barnalæknir hér á landi sem framkvæmir sóttvarnarskoðanir. „Þetta er ekki í lag, biðin er of löng,“ sagði Guðríður og bætti við að eftir sóttvarnarskoðunina þurfi síðan að bíða í aðrar fjórar til sex vikur til þess að fá skólavist.

Eiga að fá að njóta vafans

Algengt er að börn komin hingað til lands án skilríkja og vita sum þeirra ekki hvenær þau eru fædd. Þá eru svokallaðar aldursgreiningar yfirleitt framkvæmdar, en ættu aðeins að vera gerðar í brýnni nauðsyn að mati Guðríðar. „Þýðingin fyrir einstakling hvort að hann telst barn eða ekki er augljós. Það hefur áhrif á öll réttindi, einnig varðandi hælismeðferð, Dyflinnarreglugerðina og annað. En það er mjög mikilvægt að barnið fái að njóta vafans sé ekki hægt að vita nákvæman aldur þess,“ sagði hún og bætti við að hverfa ætti frá líkamsrannsóknum við aldursgreiningu en hingað til hafa tennur barna verið skoðaðar og röntgenmyndir teknar. Rauði krossinn hefur gagnrýnt þetta fyrirkomulag og telur að það eigi að beita öðrum og fjölbreyttari aðferðum til að meta aldur.

Að mati Guðríðar á einnig að takmarka notkun aldursgreininga og að það eigi ekki að vera almenna reglan ef barn kemur hingað án skilríkja. „Það á alltaf að meta vafa viðkomandi einstaklings í hag.“

Nefndi hún jafnframt að Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hafi gefið út tilmæli vegna aldursgreiningar og lagt áherslu að aðeins séu notaðar öruggar og vísindalegar aðgerðir sem brjóta ekki gegn mannréttindum barna og sú grundvallaregla að leyfa barni að njóta vafans ítrekuð.

Þurfum að grípa til nútímalegri aðferða

Að sögn Guðríðar eru aldursgreiningar með röntgenmyndatökum og tannskoðun einnig mjög ónákvæmar og eru staðalfrávikin allt upp í fimm ár. „Það er aldrei hægt að segja kristalstært hversu gamalt hvert barn er. Þetta er aldrei það nákvæmt. Svo eru auðvitað líka siðferðislegu sjónarmiðin en greining á aldri réttlætir ekki notkun á hættulegum röntgengeislum. Þá á aðeins að nota í læknisfræðilegum tilgangi og það er álitamál hvort að greining á aldri réttlæti slíkt inngrip.“

Að mati Guðríðar þarf að grípa til nútímalegri aðferða og nefndi að Bretar og Írar hafi hörfað frá röntgenskoðunum og nú sé verið að þróa aðferð þar sem litið er til fleiri þátta. „Trúverðugleikinn skiptir líka máli, maður á ekki að gefa sér það í upphafi að það sé verið að ljúga til um aldur bara því viðkomandi er hælisleitandi.“

Kvótaflóttabörn fá allt önnur tækifæri

Guðríður fór einnig yfir aðstöðumuninn á milli barna í hælisleit og svokallaðra kvótaflóttabarna. „Það er mikil samstaða um það að við viljum taka rausnarlega á móti börnum á flótta,“ sagði Guðríður. „Börn sem koma hingað í hælisleit, ein eða ekki, fá allt aðrar móttökur og tækifæri en kvótaflóttafólk.“

Nefndi Guðríður hópinn sem kom hingað til lands sem kvótaflóttamenn í síðasta mánuði. Börnin í þeim hópi eru öll búin að fara í læknisskoðun, þeirra biðu fullkomnar íbúðir með leikföngum og þeim hefur þegar verið tryggt pláss í leikskóla eða skóla. „Við þessum börnum blasir allt annar raunveruleiki.“

Guðríður flytur erindi sitt.
Guðríður flytur erindi sitt. Ljósmynd/Unicef
Útlendingastofnun
Útlendingastofnun mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Móttökustöðin stendur við Bæjarhraun 16.
Móttökustöðin stendur við Bæjarhraun 16. mbl.is/Styrmir Kári
Sýrlensk flóttabörn. Mynd úr safni.
Sýrlensk flóttabörn. Mynd úr safni. AFP
AFP
Þessi sýrlensku börn sem komu hingað til lands í janúar …
Þessi sýrlensku börn sem komu hingað til lands í janúar sem kvótaflóttamenn. Þeirra bíður allt annar raunveruleiki en hælisleitenda. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert