Beitt grófu ofbeldi

mbl.is/Þórður

Karlmaður hefur verið úrskurðaður í þriggja vikna gæsluvarðhald, en maðurinn er grunaður um að hafa svipt sambýliskonu sína frelsi sínu og beitt hana líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi. Brotin varða meira en 10 ára fangelsi.

Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í gær mannin í gæsluvarðhald til 2. mars, og staðfesti Hæstiréttur úrskurðinn í dag. 

Sambýliskona mannsins mætti á lögreglustöð föstudaginn 5. febrúar sl. og tilkynnti að hún hefði fyrr um daginn orðið fyrir árás og frelsissviptingu af hálfu mannsins, sem væri sambýlismaður hennar, á heimili þeirra. 

Í skýrslutöku kom fram, að hún hefði veirð búin að vera í sambúð með manninum um nokkurra mánaða skeið. Hann hefði beitt hana miklu líkamlegu og andlegu ofbeldi bróðurpartinn af þeim tíma eða frá því í október en þá hafi komið upp annað mál sem tilkynnt hafi verið til lögreglu.

Fram kemur, að maðurinn hefði slegið hana, sparkað í hana m.a. í höfuð hennar, hárreitt hana, kýlt í síðuna á henni af og til á þessu tímabili eða fram til dagsins í dag. Konan segir að börn sín hafi oft hafa orðið vitni að ofbeldinu.

Kona segir að sonur hennar hafi orðið vitni að ofbeldinu sem hún varð fyrir 5. febrúar og grátið allan tímann.

Lögreglan er með annað mál til rannsóknar þar sem maðurinn er undir sterkum grun um að hafa ráðist á konuna í október sl. 

Lögreglan fór fram á að maðurinn yrði úrskuraður í gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna. Rannsókn málsins er á lokastigi. Beðið er eftir skýrslum tæknideildar vegna málsins. Málið verður sent embætti héraðssaksóknara eins fljótt og unnt er.

Í úrskurði héraðsdóms er á það fallist að maðurinn sé undir sterkum grun um að hafa svipt sambýliskonu sína frelsi sínu og beitt hana líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi.

„Þau brot sem kærði er undir sterkum grun um að hafa framið varða meira en 10 ára fangelsi. Þá er á það fallist að brot þessi séu þess eðlis að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna,“ segir í úrskurðinum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert