Dagur: „Leiðinlegur árekstur“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Golli

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, fundaði með skólastjórnendum Fellaskóla í dag vegna frétta af grunnskólabarni sem var meinað að taka þátt í pítsuveislu í skólanum sl. föstudag. Dagur segir að fundurinn hafi verið góður, málin útskýrð og vill að menn læri af þessu.

Þetta kemur fram í vikulegum pistli borgarstjóra.

Fyrst var greint frá máli nemandans í Fréttablaðinu í gær. Það fauk í borgarstjóra við lestur fréttarinnar en hann skrifaði eftirfarandi á Facebooksíðu sína: „Ég skipti ekki oft skapi en viðurkenni það fauk hressilega í mig við að lesa þessa frétt í morgun. Svona gerir maður ekki.“

Fram kemur í pistlinum, að Degi hafi fundist ástæða til að kalla eftir skýringum á þessu því öll börn eigi að fá að vera með þegar slegið er upp veislu í skólunum og mikilvægt að ekkert barn sé skilið útundan.

„Á góðum fundi sem ég átti með skólastjórnendum í Fellaskóla í morgun kom fram að skólinn hafði ekki litið þannig á að þetta væri pizzu-veisla vegna öskudags heldur hefðbundinn hádegismatur fyrir þau börn sem eru í mataráskrift. Sum barnanna höfðu þó greinilega væntingar um annað og því varð þessi leiðinlegi árekstur,“ skrifar Dagur.

„Fellaskóli hefur reyndar staðið sig sérstaklega vel þegar kemur að matarmálum, með hafragraut á morgnanna og ávexti yfir daginn og hafa framfarir í námsárangri einnig óvíða verið meiri en einmitt þar. Ég ber fullt traust til stjórnenda skólans við að vinna úr þessu máli þannig að það skilji ekki eftir sig sár. Ég hef jafnframt óskað eftir því að skóla- og frístundasvið fjalli um öskudag og aðra hátíðisdaga í skólunum, þannig að við lærum af þessu máli og línur séu skýrar,“ segir ennfremur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert