Flugmannsstarfið enn í höndum karla

Á myndinni má sjá Bryndísi Láru Torfadóttur í flugstjórnarklefanum.
Á myndinni má sjá Bryndísi Láru Torfadóttur í flugstjórnarklefanum. mbl.is/Árni Sæberg

Konur er enn í miklum minnihluta flugmanna og flugstjóra landsins. Ef horft er til fimm stærstu flugfélaga landsins starfa þar 697 karlar sem flugmenn og flugstjórar en konurnar eru 50 talsins, eða 7,17%.

Sunnudagsblaðið ræddi við þrjár konur sem stýra flugvélum og forvitnaðist um starfið meðal karla. Rætt var um fordóma, ábyrgðina, öryggismál, flughræðslu, óvænt atvik og ævintýralega farþega.

Konurnar eru Bryndís Lára Torfadóttir flugmaður hjá Flugfélagi Íslands, Geirþrúður Alfreðsdóttir, flugstjóri hjá Icelandair og Kristín María Grímsdóttir, flugmaður hjá Air Atlanta.

Enn fordómar í samfélaginu

„Það var erfitt að fá vinnu fyrst. Þá voru Flugleiðir ekkert að ráða kvenfólk í miklum mæli, eða mjög lítið. En eftir að ég fékk vinnuna hef ég ekkert fundið fyrir fordómum vegna kyns. En aftur á móti kannski hjá farþegum. Þegar ég var hjá Íslandsflugi vorum við að fara á litla staði eins og Gjögur og þá varð maður var við gamla kalla sem voru alveg brjálaðir yfir að það væri verið að láta þessa stelpu fljúga,“ segir Bryndís.

Geirþrúður tekur í sama streng. „Flugið er karlastétt. Það er karllæg menning í stéttinni því að karlar eru í miklum meirihluta. Ég hef lítið pælt í því, nema maður vildi náttúrlega falla inn í hópinn. En það voru til menn í fluginu á þessum tíma sem ég var að byrja sem fannst bara að það ætti ekki að ráða konur. Það var mín einlæga sannfæring að þetta myndi deyja út en mér finnst samt ennþá karlremba í þjóðfélaginu. Það eru enn til karlmenn í minni stétt sem finnst að konur eigi ekki að vera flugmenn,“ segir hún og bætir við að henni finnist það ekki aldurstengt.

Ævintýralegir farþegar

Kristín María hefur flogið um allan heim fyrir Air Atlanta og lent í ýmsu. Hún segir að það hafi komið fyrir að fólk hafi látist um borð í vél en margir í pílagrímaflugi eru fjörgamlir og veikir. „Eitt skipti var meira að segja reynt að smygla inn dánum manni! Hann dó í ferðalaginu á leiðinni til Jeddah og fjölskyldan vildi koma honum til Mekka en það er hvergi betra að deyja en þar,“ segir hún.

Nánar má lesa um flugstarfið og ævintýri flugkvennanna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert