700 flugvélar um íslenska lofthelgi

Þessi mynd var tekin seinni part gærdags í Kópavogi og …
Þessi mynd var tekin seinni part gærdags í Kópavogi og má sjá rákir fimm flugvéla yfir höfuðborgarsvæðinu sem vöktu mikla athygli íbúa á suðvesturhorni landsins. mbl.is/Andri Steinn

Um 700 flugvélar fljúga um íslenska lofthelgi í dag og í gær samkvæmt upplýsingum frá Isavia. Að sögn Guðna Sigurðssonar, upplýsingafulltrúa Isavia, voru vélar sem fóru í gegnum lofthelgina í gær 316 talsins og áætlað er að fjöldinn verði um 390 vélar í dag.

Óvenjugott skyggni og hagstæðar vindáttir í háaloftunum hafa gert það að verkum að mikil flugumferð hefur verið sýnileg frá suðvesturhorni landsins um helgina, og segir Guðni að margar vélar hafi farið um 64 gráðuna, beint yfir suðvesturhornið, um helgina enda leitast flugumferð eftir því að fljúga í meðvindi.

Hann segir flugumferðina þó ekki óeðlilega mikla innan íslenska flugstjórnarsvæðisins, þó svo að hún sé ef til vill meri á 64 gráðunni. Oft fari mikil flugumferð suður með landinu, sé vindátt þar hagstæðari.

Tæplega 150 þúsund flugvélar á síðasta ári

Á vef Isavia er greint frá því að árið 2015 hafi 145.891 flugvélar flogið um íslenska flugstjórnarsvæðið og flugu vélarnar alls rúmlega 209 milljón kílómetra innan íslenskrar lofthelgi. Nam aukning flugumferðar á milli ára 2014 og 2015 11,5 prósentum en 64 prósent umferðarinnar var á vesturleið og 36 prósent á austurleið sem stafar af ríkjandi vindáttum á svæðinu.

„Algengasta leiðin innan flugstjórnarsvæðisins var sem fyrr frá London til Los Angeles en 2.581 ferðir voru farnar þá leið á árinu. 2.232 ferðir voru farnar frá London til Keflavíkur og 2.186 frá Keflavík til London,“ segir á vef Isavia og segir jafnframt að Icelandair, United Airlines, Delta, Emirates, Lufthansa, British Airways og SAS hafi verið þau flugfélög sem flugu oftast um íslenska flugstjórnarsvæðið.

Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia.
Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia. Aðsend mynd
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert