Bjartsýnn á meirihlutaviðræður í Borgarbyggð

Björn Bjarki Þorsteinsson.
Björn Bjarki Þorsteinsson.

Engin ástæða er til annars en að vera bjartsýnn á meirihlutaviðræðurnar sem standa yfir á milli Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í Borgarbyggð. Góður taktur er í viðræðunum og ekki steytir á neinum atriðum. Þetta segir Björn Bjarki Þorsteinsson, oddviti sjálfstæðismanna, í samtali við mbl.is.

Segir hann að verið sé að fara í gegnum öll málefni á eðlilegum hraða og að mögulega megi gera ráð fyrir einhverjum fréttum á morgun. „Það er verið að ræða saman á góðum nótum,“ segir hann. Fulltrúar flokkanna munu hittast aftur á morgun seinni partinn og er Björn Bjarki bjartsýnn á framhaldið.

Meiri­hluta­sam­starfið slitnaði vegna ágrein­ings um hagræðingu í skóla­mál­um á Hvann­eyri. Meiri­hlut­inn hafði lagt fram til­lögu um að grunn- og leik­skóli Hvann­eyr­ar yrði í sama hús­næði í Anda­bæ. Ágrein­ing­ur var uppi við íbúa­sam­tök bæj­ar­ins um fjölda bekkja­rdeilda í skól­an­um.

Haft var eftir Birni Bjarka á mbl.is í síðustu viku að hann hefði orðið þess áskynja að full­trú­ar Fram­sókn­ar­flokks­ins væru byrjaðir að ræða við önn­ur fram­boð um meiri­hluta­sam­starf án þess að hafa rætt mál­in við Sjálf­stæðis­flokk­inn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert