Fagna markmiðum frumvarpsins

AFP

„Samtökin fagna markmiðum frumvarpsins um afnám einokunar á áfengissölu sem getur haft í för með sér margvíslega hagræðingarmöguleika. Samtökin vilja þó koma á framfæri að þau telja að svo stöddu að smásala áfengis ætti einungis að vera heimil innlendum framleiðendum áfengis sem vilja selja framleiðslu sína af framleiðslustað að gefnum ákveðnum skilyrðum.“

Þetta segir í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar um frumvarp Vilhjálms Árnasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um að ríkið láti af einkasölu sinni á áfengi og sala þess verði gefin frjáls. Samtökin benda á að með afnámi einkasölu ríkisins verði hins vegar nauðsynlegt að útbúa skýran ramma um sölu áfengis með ótvíræðum afleiðingum söluaðila fari starfsemi þeirra út fyrir hann. Þá benda Samtök ferðaþjónustunnar einnig á að ekki sé gert ráð fyrir því í frumvarpinu að jafnvægi verði gætt á milli innlendra framleiðenda áfengis og erlendra.

„Erlendir framleiðendur njóta nú þegar forréttinda í gegnum auglýsingar í erlendum miðlum hér á landi og á samfélagsmiðlum, á meðan innlendum framleiðendum er bannað að auglýsa sína vöru skilyrðislaust. Þetta vandamál er nú þegar til staðar og nauðsynlegt að bregðast við því sem fyrst hvort sem ofangreint frumvarp verði samþykkt eða ekki.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert