Fengu tólf ára gamalt nammi

Börn sem sungu á skrifstofu Seyðisfjarðarkaupstaðar í síðustu viku fengu …
Börn sem sungu á skrifstofu Seyðisfjarðarkaupstaðar í síðustu viku fengu gamalt nammi. Myndin tengist fréttinni ekki beint.

Börn sem heimsóttu skrifstofu Seyðisfjarðarkaupstaðar á öskudaginn í síðustu viku fengu nammi sem rann út fyrir tæplega tíu árum. Málið er til skoðunar hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur sem mun kalla eftir skýringum frá fyrirtækinu sem seldi sælgætið.

Þetta kemur fram í frétt Austurfréttar.

Þar segir að Hafþór Guðmundsson, framkvæmdastjóri Íslenskrar dreifingar, hafi ekki viljað tjá sig þegar Austurfrétt vildi fá útskýringu á því af hverju sælgætið fór í umferð. mbl.is hefur ekki náð sambandi við Hafþór vegna málsins.

Afsökunarbeiðni var birt á vef Seyðisfjarðarkaupstaðar fyrir helgi „þar sem beðist var afsökunar á að „löngu útrunnið“ sælgæti hefði verið gefið börnum sem komu á bæjarskrifstofuna á öskudaginn,“ segir í frétt Austurfréttar.

Sælgætið var pantað í gegnum póstlista frá fyrirtækinu og bárust þrír pakkar af litríku nammi. Upp komst um málið þegar foreldri hafði samband við skrifstofu Seyðisfjarðarkaupstaðar í ljós kom að sælgætið var framleitt árið 2004.

„Haft var samband við Heilbrigðiseftirlitið sem veitti þær upplýsingar að sælgætið ætti að vera meinlaust þrátt fyrir dagsetninguna. Bæjarskrifstofunni höfðu heldur ekki borist kvartanir um að nammið hefði verið vont,“ segir einnig í fréttinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert