Heimatilbúið viðvörunarskilti við lónið

Fjöldi ferðamanna hætti sér út á lausa ísjaka við Jökulsárlón …
Fjöldi ferðamanna hætti sér út á lausa ísjaka við Jökulsárlón á sunnudag. Tilvikið er ekki einstakt, að sögn Gylfa Blöndal, sem segist reglulega sjá óábyrga hegðun af þessu tagi í starfi sínu sem leiðsögumaður. Ljósmynd/Gylfi Blöndal

Myndir sem sýna hóp ferðamanna, börn og fullorðna, við Jökulsárlón ganga út á lausa ísjaka við lónið hafa vakið mikla athygli síðasta sólarhringinn. Myndirnar eru teknar af Gylfa Blöndal, verkefnastjóra hjá IceLimo Luxury Travel, og birti hann þær á Facebook síðunni Bakland Ferðaþjónustunnar.

Öryggi ferðamanna hefur verið mikið í umræðunni undanfarna daga eftir að maður drukknaði í Reynisfjöru.

„Ég sé reglulega svona óábyrga hegðun í mínu starfi á stöðum eins og Jökulsárlóni, Reynisfjöru, Gullfossi og víðar og ég er hræddur um að engar merkingar, girðingar, gæsla eða forvarnir geti komið alveg í veg fyrir þetta. Svona er bara mannskepnan, kemur sér í aðstæður sem stundum ganga ekki upp,“ segir Gylfi.

Gylfi er ekki viss um að merkingar, girðingar, gæsla eða …
Gylfi er ekki viss um að merkingar, girðingar, gæsla eða forvarnir geti komið alveg í veg fyrir að ferðamenn fari sér að voða. Ferðamenn hafi til dæmis ítrekað hunsað merkingar við Gullfoss. Ljósmynd/Gylfi Blöndal

Finnur fyrir samviskubiti

Engar merkingar eru við lónið sjálft. „Við hengdum upp blað með áletruninni Warning: Do not go out on the ice. Það er eina viðvörunin,“ segir Helga Guðnadóttir, yfirmaður í veitingaskálanum við Jökulsárlón. Skálinn er eina aðstaðan við lónið yfir vetrartímann.  

Boðið er upp á skipulagðar bátsferðir um lónið frá apríl og fram eftir hausti. Helga hefur orðið vör við að ferðamenn fari frekar út í ísinn yfir vetrartímann, þegar ekki er boðið upp á siglingar. „Yfir sumartímann erum við úti á vatninu og í betri aðstöðu til að grípa fólk ef það fer út á ísinn. Núna finn ég fyrir samviskubiti yfir því að geta ekki varað fólk við eða gripið inn í.“

Eina viðvörun til ferðamanna við lónið er útprentað A4 blað …
Eina viðvörun til ferðamanna við lónið er útprentað A4 blað sem starfsmenn veitingaskálans útbjuggu. Ljósmynd/Helga Guðnadóttir

Ferðamenn á eigin vegum fara út á ísinn

Helga aflaði sér upplýsinga hjá samstarfsfólk sínu og landeigendum varðandi hvernig æskilegast sé að bregðast við. „Ég spurði hvort það væri okkar hlutverk að kíkja eftir því hvort fólk sé að fara út á ísinn en fékk þau svör að það væri ekki á okkar ábyrgð.“

Að sögn Helgu er hins vegar erfitt að standa hjá aðgerðarlaus. „Þetta fer ekki framhjá manni og ef ég get þá segi ég fólki að gjöra svo vel að fara af ísnum, þetta sé stórhættulegt. En meira gerum við ekki.“ Helga segir einnig að þeir ferðamenn sem fari út á ísinn séu nær undantekningalaust á eigin vegum en ekki hluti af hópi með leiðsögumann. 

Ekki hefur verið rætt um hvort útbúa eigi nánari viðvaranir þess efnis að banna ferðamönnum að fara út á ísinn í lóninu eða vara þá við þeim hættum sem því fylgja. „En það er alveg ljóst að skilgreina þarf betur hvar ábyrgðin liggur,“ segir Helga.   




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert