Læknar teknir upp óafvitandi

Upp geta komið aðstæður þar sem tryggja þarf sönnun þess …
Upp geta komið aðstæður þar sem tryggja þarf sönnun þess sem kemur upp í samtali. Eggert Jóhannesson

Dæmi eru um að sjúklingar taki upp samskipti sín við lækna, bæði hljóð og mynd, á snjallsíma sína að þeim forspurðum. Formaður Læknafélags Íslands segir að færist þetta athæfi í vöxt gæti það haft áhrif á það traust sem ríkja þarf á milli sjúklinga og lækna. Mál af þessu tagi kom nýlega inn á borð Persónuverndar og nýverið barst Embætti landlæknis kvörtun frá sjúklingi sem var studd upptöku sem tekin var að heilbrigðisstarfsmanni forspurðum.

„Ég hef heyrt um að sjúklingar séu að taka upp lækna að störfum, en veit ekki hversu algengt það er,“ segir Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands. „Þeir læknar, sem hafa talað um þetta segja að þetta sé óþægilegt og ég átta mig satt best að segja ekki á því hvers vegna fólk gerir þetta.“

Þorbjörn segir að verði þetta að reglu gæti það haft þau áhrif að læknar yrðu á sérstöku varðbergi í störfum sínum. „Auðvitað er öll varkárni góð, en það er ekki gott þegar samskipti fara að einkennast af tortryggni. Þetta gæti líka haft í för með sér að læknar veiti sjúklingum einfaldlega minni eða öðruvísi upplýsingar.“

Stundum skiljanlegt

Þorbjörn segir að upptökur sjúklinga á samskiptum sínum við lækna geti vel verið skiljanlegar undir tilteknum kringumstæðum. Eins og t.d. hjá eldra fólki, sem farið er að missa heyrn og óttist að missa af einhverju sem fram fer í samtalinu. „Í slíkum aðstæðum er auðvelt að skilja að viðkomandi vilji fá að taka samtalið upp og hlusta kannski á það í ró og næði heima. En í slíkum tilvikum biður fólk yfirleitt um leyfi.“

Þórarinn Ingólfsson, heimilislæknir og formaður Félags heimilislækna, segist ekki hafa lent í þessu í störfum sínum. En einstaka sjúklingar spyrji um leyfi til að fá að taka upp. „Ástæðan fyrir því er yfirleitt sú að fólk er hrætt um að missa af einhverju,“ segir Þórarinn.

Frá Embætti landlæknis fengust þær upplýsingar að kvörtun, sem embættinu hefði borist nýverið, hefði fylgt upptaka af störfum þess heilbrigðisstarfsmanns sem kvartað var yfir. Ákveðið hefði verið að upptakan myndi ekki verða notuð við meðferð málsins, því hún hefði verið fengin að heilbrigðsstarfsmanninum forspurðum.

Í nýlegri umfjöllun danska ríkissjónvarpsins um málið kom m.a. fram að upptökur af heilbrigðisstarfsfólki færist sífellt í vöxt þar í landi. Þar kom m.a. fram að árlega séu þar um tíu upptökur lagðar fram sem sönnunargögn þegar sjúklingar kvarta undan heilbrigðisþjónustu og að líklegt sé talið að sífellt fleiri muni kjósa að fara þessa leið.

Persónuvernd barst nýverið fyrirspurn þar sem spurt var hver væri réttur heilbrigðisstarfsmanns ef skjólstæðingur tekur upp samtal, hljóð og mynd, án vitneskju starfsmannsins og gegn vilja hans. Jafnframt var spurt hvort heilbrigðisstarfsmaður gæti sagt við skjólstæðing að allar hljóð og myndbandsupptökur væru bannaðar í samtalinu og hvort nokkuð mælti á móti því að skilti væri uppi á heilbrigðisstofnun sem bannaði slíkt. Í svari Persónuverndar kom m.a. fram að fjarskiptalög kveði á um að sá aðili að símtali, sem vill hljóðrita það, skuli í upphafi tilkynna viðmælanda um þá fyrirætlun. Ekki er sambærilegt ákvæði í lögum um samtöl sem eiga sér stað augliti til auglitis. Sé slíkt samtal tekið upp einu sinni er ekki um rafræna vöktun að ræða.

Eðlilegt að spyrja leyfis

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, segir að tilvik sem þetta falli hvorki undir fjarskiptalög né ákvæði um vöktun í lögum um persónuvernd. „En þó þetta falli ekki þar undir eiga þarna við grunnreglur persónuverndarlaga; þarna er verið að vinna persónuupplýsingar um annað fólk og getur því snúist um sanngirniskröfu, þ.e. að láta vita af upptöku.“

Helga segir að upp gætu komið aðstæður þar sem tryggja þyrfti sönnun þess sem kemur upp í samtali. „T.d. geta ráðleggingar heilbrigðisstarfsfólks verið flóknar og sjúklingur gæti viljað taka þær upp. Það væri eðlilegt að spyrja leyfis, en það er ekki beinlínis tekið fram í lögum að það skuli gert. Það má segja að þarna eigi við ein af þessum gömlu og góðu reglum í lífinu; maður kemur heiðarlega fram við fólk og af sanngirni eins og gert er ráð fyrir í 7. grein persónuverndarlaga.“

Líklegt að gerist hér

Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, segist ekki vita til þess að hjúkrunarfræðingar að störfum hafi verið teknir upp að þeim forspurðum og það sama segir Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Sjúkraliðafélags Íslands. „En það er ekkert ólíklegt að þetta gerist hér fyrst þetta gerist í öðrum löndum,“ segir Kristín.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert