Sýknaðir af kröfu Björgólfs

Björgólfur Thor Björgólfsson þarf að greiða Róberti Wessman og Árna …
Björgólfur Thor Björgólfsson þarf að greiða Róberti Wessman og Árna Harðarsyni 1,6 milljónir króna í málskostnað vegna málarekstursins. mbl.is/Ásdís

Róbert Wessman og Árni Harðarson voru sýknaðir af skaðabótakröfu Björgólfs Thors Björgólfssonar í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Björgólfur sakaði tvímenningana um að hafa dregið að sér milljónir evra af reikningi Actavis sem forstöðumenn félagsins Salt Investments.

Samkvæmt stefnunni taldi Björgólfur sig hafa orðið fyrir fjártjóni vegna aðgerða Róberts og Árna. Krafðist hann þess að þeir greiddu sér tvær milljónir evra í skaðabætur. Þeir Róbert og Árni voru sagðir hafa fært fjórar milljónir evra sem voru í vörslu Actavis inn á reikning félagsins Salt Investments. Féð hafi verið eign félagsins Mainsee en Björgólfur var í skiptri ábyrgð fyrir skuldum síðastnefnda félagsins. Með þessu taldi hann tvímenningana hafa gengið gegn hagsmunum félagsins.

Héraðsdómur taldi Árna hins vegar hafa verið í fullu umboði til að flytja fjármunina. Ekki hafi verið sýnt fram á saknæmi eða ólögmæta háttsemi. Þá bendi ekkert til þess að Róbert hafi komið á ákvörðuninni um millifærsluna.

Því voru Róbert og Árni sýknaðir af öllum kröfum Björgólfs sem þarf að greiða tvímenningunum 1,6 milljónir króna í málskostnað.

Í yfirlýsingu frá Róberti og Árna segir að dómurinn sé afgerandi og hann beri með sér að málshöfðunin hafi verið algerlega tilefnislaus eins og þeir hafi haldið fram frá upphafi. Áður hafi sérstakur saksóknari og ríkissaksóknari vísað málinu frá sér á mjög afgerandi hátt.

Fyrri frétt mbl.is: Skaðabótamál Björgólfs tekið fyrir

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert