Hola í ósonlaginu þegar það ætti að vera þykkast

Ósonlagið var þunnt yfir landinu um helgina.
Ósonlagið var þunnt yfir landinu um helgina. mbl.is/Golli

Á þessum árstíma ætti ósonlagið að vera hvað þykkast og telst ástandið sem var yfir landinu um helgina því vera óvenjulegt. Hola í ósonlaginu fór yfir landið á 2-3 dögum og áætlar Árni Sigurðsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, að miðað við venjulegt ástand hafi þynningin numið um 40% um helgina.

Þykkt ósonlagsins er óregluleg og þegar ósonlagið þynnist, eða holur fara yfir landið, hleypir ósonlagið meiru af útfjólubláu ljósi í gegnum sig og það getur haft skaðleg áhrif. Ósonlagið er að finna í heiðhvolfi lofthjúpsins, einkum í 10 til 30 km hæð, en óson er að finna í öllum lofthjúpnum, allt frá yfirborði jarðar.

Ósonmælingar hófust í Reykjavík í júní 1952 með Dobson litrófsmæli. Ósongat/-hola (Ozone hole) er skilgreint sem slíkt ef það fer niður fyrir 220 Dobson-einingar (DU), en venjulega er ósonið 250-260 DU um miðbik jarðar. Um helgina var ósonið mælt í kringum 230-240 DU, að sögn Árna.

Raki þéttist með kólnun

Hann segir að þegar kólni mikið í heiðhvolfinu geti raki þést og myndað þar breiður þunnra glitskýja og þegar klór-efnasambönd, sem hafi verið sleppt út í loftið, komast í samband við ískristallana sem skýin eru mynduð úr, geti með hjálp sólarljóss farið af stað efnahvörf þar sem klór binst súrefni og óson eyðist af þeim sökum.

Undanfarið hafi verið kuldapollur í heiðhvolfinu yfir hafinu í kringum Ísland. Á þessum árstíma sé þessi kuldapollur venjulega yfir Íshafinu í kringum Norðurpólinn, en hann geti þvælst um og farið yfir Síberíu, Kanada og jafnvel Skandinavíu, en nú hafi hann verið tíður gestur yfir Norður-Atlantshafi.

Aðspurður segir Árni að sérfræðingar hafi nokkrar áhyggjur af framhaldinu. Hringstraumur sé í heiðhvolfinu sem blæs rangsælis yfir Norðurpólnum, þó hann sé veikari en sá sem er yfir Suðurskautslandinu. Innan við og í þessum hringstraumi hafi þessi hola myndast í köldum loftpolli og hún geti verið á þvælingi.

Ósoneyðingin helst í hendur við kuldann og lengd sólskins á skýin, en óljóst er með framhaldið, sem ræðst af styrk hringstraumsins þegar sól smám saman hækkar á lofti. Þegar dagarnir lengjast getur ósoneyðingin orðið meiri og einnig getur þynningarsvæðið þvælst um og jafnvel yfir þéttbýl svæði. E.t.v. getur aukin tíðni ósonlítilla daga síðla vetrar leitt til hærri tíðni húðkrabbameins á norðlægum slóðum.

Magn ósons breytilegt

Á vef Veðurstofunnar segir að heildarmagn ósons í lofthjúpnum á norðlægum breiddargráðum sé mjög breytilegt eftir árstíma. Því valdi einkum mismikið aðstreymi ósons í háloftunum frá svæðunum kringum miðbaug þar sem myndun þess á sér að mestu leyti stað.

Mest er ósonmagnið síðla vetrar, nánar tiltekið eftir miðjan mars, en minnkar síðan jafnt og þétt er líður fram á vor og sumar og allt fram í október-nóvember og hefur þá minnkað um 25-30%. Síðan tekur það að aukast lítillega uns verulegur vöxtur kemur í það í febrúar og áfram fram yfir miðjan mars.

Frávik frá meðaltali, jákvæð eða neikvæð, eru að jafnaði mest á tímabilinu frá febrúar og fram í apríl þar sem þá er aðstreymi ósons frá miðbaug mest og breytileiki þess mikill frá degi til dags vegna lægðagangs og umhleypingasams veðurfars. Þegar veður kyrrist á sumrin eyðist óson vegna efnasambanda sem berast frá yfirborði hafsins upp í andrúmsloftið.

Ósonlagið 60% af þykkt sinni

Óvenjulágt óson yfir Íslandi

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert