Kerfið orðið viðskila við réttlætið

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Styrmir Kári

„Maður þarf í raun ekki að fara neitt til þess að átta sig á mikilvægi þessara mála í hugum landsmanna, það nægir að fylgjast með undirskriftasöfnuninni sem stendur yfir um endurreisn heilbrigðisþjónustunnar,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á Alþingi í dag í umræðum um störf þingsins þar sem hún gerði mikilvægi heilbrigðismála að umtalsefni sínu.

„Þegar hlustað er eftir því hvað fólkið í landinu hefur um þessi mál að segja þá eru þær áhyggjur margháttaðar. Þær snúast um það hvernig kostnaður sjúklinga hefur vaxið jafnt og þétt. Þær snúast um það mikla álag sem er á Landspítalanum, sem er á heilsugæslunni um land allt og á öðrum sjúkrahúsum. Þær snúast um þær áhyggjur sem landlæknir hefur sett fram um að heildarsýn vanti á þróun heilbrigðisþjónustunnar,“ sagði hún.

Hins vegar tengdust áhyggjurnar einnig „réttlátri reiði yfir því að á sama tíma berast fregnir af milljarðaarði, hvort sem er í fjármálakerfinu eða í sjávarútveginum. Það berast fregnir af því frá ríkisskattstjóra að hér séu skattaundanskot á ári um 80 milljarðar. Það er nú ýmislegt sem mætti gera við þá fjármuni. Það er á svona stundum sem almenningur upplifir það að kerfið hafi orðið viðskila við réttlætið, kerfið sem við höfum byggt upp saman og á að snúast um að tryggja jafnt aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu, að menntun, að innviðum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert