Bað um að vera leystur undan skyldum sínum

mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Yfirlögregluþjónn hjá embætti héraðssaksóknara bað um að vera leystur undan starfsskyldum sínum í rannsókn á lögreglumanni í síðasta mánuði. Að sögn Ólafs Þórs Haukssonar, héraðssaksóknara, óskaði yfirlögregluþjónninn Grímur Grímsson eftir því sjálfur að vera leystur undan skyldum sínum í rannsókninni sem snýr að óeðlilegum samskiptum lögreglumannsins við brotamenn, en aðkoma hans í málinu á að hafa valdið óróa innan lögreglunnar.

„Hann óskaði eftir þessu 29. janúar og það var orðið við því sama dag,“ segir Ólafur í samtali við mbl.is.

Að sögn Ólafs var málinu úthlutað til tveggja lögreglumanna til rannsóknar þegar að embættið fékk málið á sitt borð þann 11. janúar síðastliðinn og er Grímur yfirmaður þeirra. „Þar sem að Grímur hefur ekki lengur aðkomu að þessu máli svara þessir rannsakendur þessu máli beint til mín og varahéraðssaksóknara,“ segir Ólafur og bætir við að hann og Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, hafi verið vel inni í málinu frá upphafi.

Hann segir jafnframt að rannsókn málsins gangi vel. „Nú er bara verið að hnýta lausa enda.“

Vísir sagði fyrst frá málinu fyrr í dag. 

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari.
Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert