„Viðbrögðin hafa verið stórkostleg“

Flóttafólk við komuna í Leifsstöð. Mynd úr safni.
Flóttafólk við komuna í Leifsstöð. Mynd úr safni. mbl.is/Golli

Hátt í þrjátíu einstaklingar eða fjölskyldur hafa haft samband við Barnaverndarstofu og boðist til að taka í fóstur barn sem kemur til landsins á flótta og án fylgdar fullorðinna. Þetta segir Bragi Guðbrandsson forstjóri Barnaverndarstofu.

„Viðbrögðin hafa verið stórkostleg og við erum alveg í skýjunum yfir þessu,“ segir Bragi og tekur fram að hann sé fullviss um að fréttaflutningur mbl.is af málinu hafi haft mikið að segja.

„Það voru nokkrir sem hringdu strax og vitnuðu beint í fréttina, svo það er engum blöðum um það að fletta.“

Frétt mbl.is: Óska eftir kærleiksríku fólki

Börn á flótta kunna að leita til Íslands í ríkari …
Börn á flótta kunna að leita til Íslands í ríkari mæli. AFP

Þrjú börn bíða fósturs

Þrjú börn bíða þess nú að komast í fóstur hjá íslenskum fjölskyldum, en þau komu hingað til lands í desember. Eru þau á aldrinum 14 til 15 ára og komu tvö þeirra frá Sýrlandi og eitt frá Albaníu. Að þeim meðtöldum komu til landsins sjö börn án fylgdar fullorðinna á síðasta ári.

Bragi segir að vísbendingar séu um að þau verði fleiri á þessu ári.

„Við þurfum að gera ráð fyrir að svo verði. Við getum þó ekkert gefið okkur í þessum efnum. Það eru margar hindranir sem mæta þeim börnum sem hyggjast leggja leið sína til Íslands. Þau þurfa að koma hingað með flugi og neyðast því til að hafa einhver auraráð. Þá verða þau að þekkja til landsins til að taka ákvörðun um að koma hingað,“ segir Bragi og nefnir Svíþjóð til samanburðar.

„Allt síðastliðið ár erum við að fá aðeins sjö einstaklinga undir þessum formerkjum á meðan Svíþjóð tók við 25 þúsund fylgdarlausum börnum á síðasta ári.“

Frétt mbl.is: „Enginn hefur spurt mig hvernig mér líður“

Börn, sem áður bjuggu í flóttamannabúðum í Líbanon, á gangi …
Börn, sem áður bjuggu í flóttamannabúðum í Líbanon, á gangi í Kýpur. AFP

Ganga ekki að kollsteypu vísri

Hann segir þetta benda til þess að líkurnar á því að barn ákveði að koma hingað til lands séu sáralitlar.

„Þar af leiðandi getum við ekki gengið út frá því að það verði einhver kollsteypa á þessu ári. Þess vegna höfum við afráðið að nota ekki þá takmörkuðu aura sem við höfum til að setja á laggirnar móttökustöð fyrir börnin, á meðan þetta eru ekki fleiri einstaklingar.

Á hinn bóginn vitum við að Norðurlandaþjóðirnar eru að draga dálítið saman seglin og það kann að leiða til þess að þau leiti hingað í ríkari mæli. Rök hníga því á báða bóga en það er ómögulegt að spá fyrir um framhaldið. Þess vegna er svo mikilvægt að búa að þessum sem nú hafa svarað ákalli okkar og eru reiðubúin að koma til aðstoðar. Sú innistæða getur nýst okkur mjög vel ef til fjölgunar kemur á þessu ári.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert