Ábyrgðin liggur hjá skólunum

"Ef áætl­un­in er ekki heild­stæð er hætta á að einelti verði vanmetið og samstillt vinna starfsmanna bresti,“ seg­ir Þor­lák­ur. mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson

Það að heild­stæð einelt­isáætl­un sé til staðar er grund­vall­ar­atriði þegar það kem­ur að því að bregðast rétt við einelti í grunn­skól­um lands­ins. Þetta seg­ir Þor­lák­ur H. Helga­son, fram­kvæmda­stjóri Olweus­ar­verk­efn­is­ins í sam­tali við mbl.is. Að sögn Þor­láks ligg­ur ábyrgðin fyrst og fremst hjá skól­an­um og starfs­fólki þess.

Olweus­ar­áætlun var fyrst innleidd á Íslandi árið 2002. Í dag eru um 50 grunnskólar virkir í verkefninu, þar af 13 í Reykjavík. Unnið er skipulega að skil­virk­um aðgerðum gegn einelti og að skapa skólabrag og bekkjaranda þar sem einelti þrífst ekki.

mbl.is hefur nú rætt við mæður tveggja tólf ára drengja sem hafa verið lagðir í gróft einelti af sama hópi drengja í mörg ár. Þorlákur segir það mjög alvarlegt þegar að einelti stendur yfir í langan tíma. 

Fyrri frétt mbl.is: Tólf ára ýtt út á Hverfisgötu

Fyrri frétt mbl.is: Eitt sinn stríðni, nú ofbeldi

Starfsfólk getur orðið meðvirkt í eineltinu

„Ef það er grun­ur um einelti er mik­il­vægt að rætt verði form­lega við báða, aðila, meintan geranda og þolanda. Sé niðurstaðan sú að um einelti sé að ræða er séð til þess að viðkom­andi sem er að lenda í einelt­inu verði „friðaður“ í þeirri merk­ingu að reynt sé að sjá til þess að hann lendi ekki í útistöðu við gerenda, m.a. að þeir séu ekki sett­ir sam­an í hópa­vinnu og þess hátt­ar. Ger­and­anum er gerð grein fyrir því að þessu einelti þurfi að ljúka,“ seg­ir Þor­lák­ur í sam­tali við mbl.is. Hann seg­ir að það sé ekki rétta leiðin að skamma ger­and­ann og und­ir öll­um kring­um­stæðum á að hafa sam­band við for­eldra, bæði ger­and­ans og þoland­ans eins fljótt og auðið er.

Þor­lák­ur seg­ir reglu­bundið eft­ir­lit lyk­il­atriði. „Við mæl­um með því að það sé regla á hlut­un­um, bæði gagn­vart þolanda og ger­anda. Það þarf að gera ger­anda grein fyr­ir því að það verði fylgst með hon­um,“ seg­ir hann og bæt­ir við að stund­um geti starfs­fólk skóla orðið meðvirk­ir í einelt­inu. „Hætt­an er sú að starfs­fólkið reyni bara að fylgja því besta sem er og að all­ir verði góðir í skóg­in­um. Það þarf að sýna mynd­ug­leika og að hinir full­orðnu taki ábyrgðina.“

Engum gerður greiði með því að hunsa eineltið

Aðspurður um mál þegar að einelti stend­ur yfir í mörg ár seg­ir Þor­lák­ur þau alltaf mjög al­var­leg. „Eft­ir því sem tím­inn líður þá líður krökk­un­um verr. Þegar þetta geng­ur svona lengi þarf skól­inn hjálp til að kom­ast úr þess­um far­vegi. Það get­ur vel verið að starfs­fólk skól­ans sé orðið það meðvirk­t með ger­anda, finn­ist hann kannski efni­leg­ur og klár nem­andi og hunsa eineltið. Ger­and­inn þarf líka stuðning og hann fær röng skilaboð ef for­eldr­ar og kenn­ar­ar eru meðvirk­ir gagn­vart hon­um. Það er eng­um gerður greiði ef þetta er hunsað, það þarf að sýna ger­and­an­um og þoland­an­um sama skiln­ing og hlýju. Þú sem full­orðinn berð ótak­markaða ábyrgð á vel­ferð barn­anna.“

For­eldr­ar þurfa einnig að sýna ábyrgð að mati Þor­láks. „For­eldri ger­anda vill oft ekki trúa því að barnið geti lagt í einelti. Það er oft erfitt þegar að for­eldr­ar líta á viðbrögð við einelti sem barn þeirra stund­ar sem refs­ingu.“

Hætt á að menn fari í „viðgerðarfræðina“

„Annað lyk­il­atriði er að skól­inn sé með heild­stæða einelt­isáætl­un frá toppi til táar og að all­ir starfs­menn skól­ans séu meðvitaðir um sitt hlut­verk. Rann­sókn­ir sýna að þetta gangi best þar sem áætl­un­in er heild­stæð, ekki bara í ein­um og ein­um bekk. Ef áætl­un­in er ekki heild­stæð er hætta á að einelti verði vanmetið og samstillt vinna starfsmanna bresti,“ seg­ir Þor­lák­ur. Þor­lák­ur seg­ir að ef skól­ar taki ekki upp heild­stæða einelt­isáætl­un er hætt á að menn fari í „viðgerðarfræðina.” Þá er reynt að laga hvert og eitt mál og bara beðið eft­ir að næsta komi upp og þá eru þetta aðeins skamm­tíma­lausn­ir.“

Í reglu­gerð frá ár­inu 2011 um ábyrgð og skyld­ur aðila skóla­sam­fé­lags­ins í grunn­skól­um kem­ur fram að all­ir skól­ar skuli hafa heild­stæða stefnu til að fyr­ir­byggja og bregðast við lík­am­legu, and­legu og fé­lags­legu of­beldi og fé­lags­legri ein­angr­un. 

„Skól­ar skulu setja sér aðgerðaáætl­un gegn einelti með virkri viðbragðsáætl­un til að tak­ast á við einelt­is­mál í skól­an­um,“ seg­ir í reglu­gerðinni en áætl­un­in skal ná til allr­ar starf­semi og starfs­fólks skóla.

Rekja brottfall í framhaldsskólum til eineltis

„Við þurfum að byrja fyrr í skólakerfinu. Við höfum innleitt Olweusaráætlunina í leikskóla með góðum árangri. Nú er vitað að brottfall nemenda í framhaldsskólanum má rekja til eineltis. Rannsókn í Svíþjóð á misgengi brottfallsnema leiddi í ljós að nemendur töldu einelti helstu ástæðu þess að þeir áttu erfitt með að fóta sig. Við þurfum að setja undir þennan leka með faglegri vinnu gegn hvers kyns ofbeldi, þar með töldu eineltinu,“ segir  Þorlákur.

Þorlákur H. Helgason, framkvæmdastjóri Olweus­ar­áætlunarinnar.
Þorlákur H. Helgason, framkvæmdastjóri Olweus­ar­áætlunarinnar. mbl.is/Valdís Þórðardóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert