Áfram í varðhaldi fyrir tilraunir til nauðgana

Lögreglan telur hafið yfir skynsamlegan vafa að maðurinn sé sekur …
Lögreglan telur hafið yfir skynsamlegan vafa að maðurinn sé sekur um árásirnar. mbl.is/Þórður

Hæstiréttur staðfesti í dag áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manni sem reyndi að nauðga tveimur stúlkum í miðbæ Reykjavíkur með skömmu millibili um miðjan desember. Hann mun því sitja í gæsluvarðhaldi til 14. mars.

Árásirnar áttu sér báðar stað aðfaranótt 13. desember, sú fyrri í Tjarnargötu en sú seinni í Þingholtsstræti. Í báðum tilfellum elti maðurinn stúlkur og gerði tilraun til að nauðga þeim með ofbeldi.

Birtar voru myndir úr öryggismyndavélum af manninum í fjölmiðlum nokkrum dögum síðar. Hann gaf sig sjálfur fram við lögreglu í kjölfarið en hann neitaði sök við skýrslutöku. Hann hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 18. desember en lögreglan telur sterkan grun um að hann hafi framið árásirnar. Þannig sé seinni árásin til nærri því í heild á upptöku öryggismyndavélar.

Fyrri frétt mbl.is: Reyndi að nauðga tveimur konum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert