Fálki drap máv og át á Akureyri

mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Fálkar eru ekki algeng sjón á Akureyri en einn slíkur réðst á ungan máv um hádegi í gær við Áshlíð í Glerárhverfi. Eftir mikinn slag hafði fálkinn betur og gæddi sér á bráð sinni í kvenfélagsgarðinum, á milli Áshlíðar og Skarðshlíðar.

„Mávurinn sat upp á snjóruðningi þegar ég sá að fálkinn kom fljúgandi og ræðst á hann, og þeir ultu niður af ruðningnunum eftir að slagurinn hófst. Fálkinn slóst lengi við mávinn eftir að þeir ultu niður - það var mikill slagur,“ sagði Hólmfríður Sara Friðjónsdóttir, íbúi við Áshlíð, í samtali við blaðamann Morgunblaðsins og mbl.is í gær. Hún sá atvikið út um eldhúsgluggann. „Eftir að fálkinn hafði drepið mávinn dró hann bráðina inn í kvenfélagsgarðinn og tætti hana í sig. Ég fór út og ætlaði að reyna að ná mynd á símann minn en fálkinn fór þá burt; reyndar ekki langt heldur flaug upp í tré en kom til baka mjög fljótlega þótt ég væri enn á staðnum. Hann ætlaði ekki að gefa sig."

Þegar blaðamann bar að gerði skömmu síðar sat fálkinn í mestu makindum ofan á bráð sinni og naut hádegisverðarins. Maðurinn með myndavélina gekk rólega í átt að veislunni en þá hóf fálkinn sig til flugs og hélt til í tré í grenndinni í skamma stund. Hann kom til baka að stuttum tíma liðnum, eftir að hinn óboðni gestur hafði falið sig með tæki sín og tól á góðum stað til myndatöku.

mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Skapti Hallgrímsson
Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert