Fylgist heldur með heilsu flugmanna

Þota flugfélagsins Germanwings
Þota flugfélagsins Germanwings AFP

Verklag sem tekið var upp eftir að ljóst þótti að flugmaður German Wings hefði grandað farþegaþotu síðastliðið sumar hefur verið gagnrýnt og hefur Evrópusamband flugmannafélaga ályktað að rétt sé að láta af því.

Verklagið er með þeim hætti að ef flugmaður þarf að bregða sér aftur fyrir hurð í flugi þá á starfsmaður í farþegarúmi að koma inn í flugstjórnarklefann og sitja með þeim flugmanni sem eftir situr þar til hinn kemur aftur inn í klefann.

Þetta kemur fram í Fréttabréfi Félag íslenskra atvinnuflugmanna.

Mörg flugfélög tóku upp verklagið í í kjölfar slyssins. Í fréttinni segir að mörg samtök og félög hafi látið gera mat á því hvort þetta nýja verklag skili því öryggi sem ætlast er til og virðist niðurstaða flestra aðila vera af hinu gagnstæða.

Er verklagið sagt minnka öryggi af því að þá er hurð í flugstjórnarklefa  meira opin og því aukin hætta á óviðkomandi innkomu. Þá fer sá aðili sem kemur og situr í klefanum hjá flugmanninum   ekki í gegnum sömu athuganir og bakgrunnsskoðanir og flugmenn og því auðveldara að „smygla“ sér í slíkt starf.

Þá er einnig nefndt að flugmenn veigri sér við að standa upp til að trufla ekki samstarfsfólk sitt sem er við þjónustustörf og þetta auki hættu á líkamlegum vandamálum hjá flugmönnum. „Sá aðili sem kemur fram í til að sitja hjá eftirsitjandi flugmanni er í meirihluta tilvika til lítils megnugur að sporna við ef slæmur vilji er hjá þeim flugmanni sem fyrir er. Ekki einu sinni víst að aðilinn átti sig á því ef flugvél er beygt af leið,“ segir einnig í fréttinni.

Evrópusamband flugmannafélaga hefur gefið út álit þess efnis að rétt sé að láta af þessu verklagi og beina frekar kröftum að því að fylgjast betur með heilsufari flugmanna sem hluti af öryggisstefnu flugfélaga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert