Næturregnbogi byggði brú út í heim

Víðir með Guðmundi vini sínum í ölduróti við Íslandsstrendur.
Víðir með Guðmundi vini sínum í ölduróti við Íslandsstrendur.

Hann er kominn með ljósmyndadellu eftir að hann seldi Playstation-tölvuna sína og keypti sér myndavél. Hann syndir í íslenskum sjó og tekur myndir í ölduróti, af fuglunum sem mamma gefur að borða og því sem verður á vegi hans. Myndirnar hans hafa birst í erlendum miðlum og ljósmyndaverkefnin tínast inn.

Ég hef alla tíð haft áhuga fyrir ljósmyndun en það var ekki fyrr en um mitt árið 2015 sem ég fór að taka myndir á fullu. Þá hafði ég fengið nóg af því að vinna leiðinlega dagvinnu, svo ég hætti því og ákvað að fara að vinna við eitthvað sem ég hefði áhuga á og þætti skemmtilegt. Ég fór því að þeyta skífum sem plötusnúðurinn Dj Víðir og Dýrið, en sú vinna er einvörðungu um helgar og því hafði ég nægan tíma á virkum dögum.

Ég ákvað að selja Playstation-tölvuna mína og kaupa mér eitthvað af viti í staðinn, og það var Go-Pro myndavél. Hún varð til þess að ég var alltaf úti að gera eitthvað skemmtilegt og taka myndir í leiðinni,“ segir Víðir Björnsson áhugaljósmyndari, sem hefur verið iðinn við kolann og fengið birtar myndir í erlendum miðlum. Hann var með fyrstu ljósmyndasýningu sína á Eyrarbakka um síðustu helgi á árlegu Sólarkaffi, sem er gömul vestfirsk hefð til að fagna sólinni, en í æðum fjölskyldu Víðis rennur önfirskt blóð.

„Pabbi er fæddur og uppalinn í Önundarfirði og hann er reyndar hörku ljósmyndari, þannig að ég hef þennan áhuga eflaust líka frá honum,“ segir Víðir, sem tekur líka myndbönd, þó að ljósmyndunin eigi hug hans allan. „Ég fann mig algerlega í þessu og er klárlega kominn með ljósmyndadellu.“

BBC birti mynd og tók viðtal

Víðir segir að sér hafi alla tíð fundist gaman að vera úti að leika þegar hann var strákur og að það hafi nú vaknað á ný.

„Ég stunda sjósund með félögum mínum og ég er í raun háður sjónum, hann togar í mig. Ég bókstaflega verð að ganga í fjöruborðinu í hverri viku við Óseyrarnes á bernskuslóðunum. Þegar ég fer í fjallgöngur reyni ég að velja leið og stað sem ég veit að er fallegur og tek myndir í leiðinni. En ég fer líka stundum gagngert eitthvert út til þess eins að taka myndir,“ segir Víðir, sem hefur tekið þó nokkuð af fuglamyndum, enda er hann alinn upp við sjávarsíðuna á Eyrarbakka þar sem fuglalífið er fjölbreytt.

„Amma og mamma hafa gefið krumma matarafganga allt sitt líf og þar sem foreldrar mínir búa á Eyrarbakka veit krummi alveg hvert hann á að koma í matinn. Mig langaði að ná mynd af þessum merkilega fugli og ég faldi myndavélina rétt við góðgætið og skildi hana þar eftir, því að hrafninn er var um sig. Úr þessu komu margar góðar myndir, ekki aðeins af krumma, heldur líka af öðrum fuglum. Þessar myndir hafa vakið lukku og mynd af starra að næla sér í bita var birt í The Telegraph, en ástæðan fyrir því að ég átti greiða leið í erlenda miðla með myndir mínar er sú að síðastliðið haust náði ég góðri mynd af svokölluðum njólubaug (e. moonbow), sem er næturregnbogi, en njóla er skáldamál og merkir nótt. Njólubaugur er sjaldgæfur en getur myndast þegar fer saman mjög bjart tunglskin og súld eða skúraveður ásamt dreifðum skýjum. BBC hafði samband við mig út af þessari njólubaugsmynd og tók við mig viðtal, og í framhaldinu fór myndin út um allan heim. Næturregnboginn er því brú mín út í heim; eftir þetta var ég kominn með fullt af tengiliðum úti um víða veröld sem vildu fá myndir frá mér. Núna sendi ég myndir til konu í London hjá fyrirtækinu Rex ShutterStock og hún reynir að selja þær áfram fyrir mig til fjölmiðla og fleiri aðila, en myndir þaðan birtast í hinum ýmsu miðlum hvar sem er í heiminum.“

Ljósmyndun og útivist er fullkomin blanda

Ljósmyndunin er ástríða hjá Víði en honum er fleira til lista lagt, hann er meðal annars meðlimur í hljómsveitinni Kiriyama Family og leikur þar á bassagítar og hljómborð.

„Framtíðarplönin eru enn að gerjast með mér, kannski fer ég og læri ljósmyndun, kannski ekki, því að flestir þeirra ljósmyndara sem ég dáist að eru sjálfmenntaðir.

Ég stefni að því að vinna við eitthvað tengt ljósmyndun og verkefnin eru nú þegar byrjuð að tínast inn. Fólk hefur hvatt mig mjög mikið áfram og það er frábært. Ég hef algerlega fundið mig í þessu og ég varð útivistarmaður á sama tíma, þetta er fullkomin blanda.“

Hægt er að skoða myndirnar hans Víðis hér og á instagram: vidirb



Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert