Óskuðu ekki eftir endurupptöku

Útlendingastofnun taldi sanngjarnast að flutningunum yrði frestað.
Útlendingastofnun taldi sanngjarnast að flutningunum yrði frestað. Sigurður Bogi Sævarsson

Lögmenn hælisleitendanna þriggja sem stóð til að flytja úr landi í nótt óskuðu ekki eftir endurupptöku mála þeirra hjá kærunefnd útlendingamála eftir að dómar Hæstaréttar lágu fyrir í október á síðasta ári þó að forsendur væru fyrir því.

Útlendingastofnun taldi sanngjarnast að láta mennina ekki líða fyrir það og því var óskað eftir að flutningi mannanna úr landi yrði frestað þar til afstaða kærunefndarinnar um endurupptöku liggur fyrir.

Þetta segir Skúli Á. Sigurðsson, verkefnisstjóri hjá Útlendingastofnun, í samtali við mbl.is. Fréttirnar bárust mönnunum á elleftu stundu en til stóð að flytja þá úr landi í nótt. Um er að ræða þá Christian Boadi frá Ghana og Martin Omulu og Idafe Onafe Oghene frá Nígeríu.

Frétt mbl.is: Ekki fluttir út landi í nótt

„Eins og málið horfir við Útlendingastofnun lá fyrir með dómi Hæstaréttar í málinu að flutningur á þessum hælisleitendum væri væntanlegur. Útlendingastofnun getur ekki endurskoðað niðurstöðu æðra stjórnvalds eða dómstóla og stofnunin óskaði þess vegna eftir flutningi í samræmi við dóm Hæstaréttar og fyrirliggjandi úrskurði innanríkiráðuneytisins,“ segir Skúli. „Strangt til tekið voru forsendur fyrir beiðni um endurupptöku fyrir hendi strax eftir dóm Hæstaréttar,“ bætir hann við.

„Þegar Hæstiréttur kveður upp dóm í þessum málum þá er æðsti dómstóll landsins búinn að kveða upp dóm og að meginreglu eru stjórnvöld bundin af dómum Hæstaréttar. Aftur á móti er um að ræða úrskurði sem eru töluvert eldri en venjulegt þegar mál koma til framkvæmdar, þess vegna hefði verið eðlilegt að óska endurupptöku án tafar eftir að dómarnir voru kveðnir upp í október í fyrra,“ segir Skúli.

Skúli segir það mat  Útlendingastofnunar að afar óheppilegt hefði verið að tafir á því að koma málunum í réttan farveg hefðu verið látnar bitna á mönnunum sjálfum.

„Það þótti okkur ekki vera tækt í stöðunni, þeim verður á engan hátt kennt um þetta. Þess vegna töldum við sanngjarnast, að fenginni staðfestingu á því að óskað yrði endurupptöku án tafar, að flutningunum yrði frestað þangað til að kærunefndin hefði fengið tækifæri til að taka afstöðu um beiðni um endurupptöku,“ segir Skúli að lokum.

Uppfært kl 22.39

Ívar Þór Jóhannsson, lögmaður Idafe Onafe Oghene, eins mannsins sem átti að flytja úr landi, segir rangt að ekki hafi verið óskað eftir endurupptöku mála hælisleitendanna. Segir hann að daginn eftir að dómur Hæstaréttar lá fyrir hafi hann sent formlega erindi þess efnis til innanríkisráðuneytisins. Segist hann því ekki skilja að rökin sem Skúli leggur fram hér að ofan eigi við um mál skjólstæðings síns.

Kærunefnd útlendingamála er sjálfstætt starfandi nefnd undir innanríkisráðuneytinu og segir Ívar að ef málið átti að berast nefndinni en ekki ráðuneytinu hafi það verið skylda ráðuneytisins að koma erindinu áfram á viðeigandi aðila.

Uppfært kl. 11.03 fimmtudaginn 18. febrúar

Ívar Þór beindi erindi til innanríkisráðuneytisins á sínum tíma þar sem hann óskaði eftir endurupptöku. Beiðinni hefði þó átt að beina til kærunefndar útlendingamála og barst nefndinni engin slík beiðni fyrr en í gær. 

Þetta á aðeins við um skjólstæðings Ívars Þórs þó annað megi lesa úr orðum hans hér á ofan en þar segir hann rangt að ekki hafi verið óskað eftir endurupptöku mála allra þriggja, þ.e. hælisleitendanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert