Vilja losna fyrr við gúmmíkurlið

Gervigrasvöllur Fram í Úlfarsárdal
Gervigrasvöllur Fram í Úlfarsárdal mbl.is/Ómar Óskarsson

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur gagnrýnt áætlun meirihluta borgarráðs um að endurnýjun gervigrasvalla með umdeildu gúmmíkurli sé ekki í forgangi.

„Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina telja brýnt að endurnýjun á gervigrasvöllum í Reykjavík verði hraðað í því skyni að hætta sem fyrst notkun á svörtu úrgangsdekkjakurli (SBR) á yfirborði þeirra,“ segir í bókun sem Kjartan lagði fram á borgarstjórnarfundi.

Stutt er síðan Reykjavíkurborg greindi frá því að gervigrasvellir borgarinnar verði endurnýjaðir á næstu árum. Á sumum völlunum verður SBR-gúmmíi skipt út. Það hefur verið talið heilsuspillandi en Reykjavíkurborg segir engar óhyggjandi sannanir vera fyrir því. Þess vegna verði gúmmíinu ekki skipt út í eingöngu í einni aðgerð.

Frétt mbl.is: Skipt um gúmmí fyrir 100 milljónir

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi.
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi.

„Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina ítreka þá tillögu sína að 3-4 gervigrasvellir verði endurnýjaðir á þessu ári og að forgangsröðun verkefna taki mið af því að hætta sem fyrst notkun á svörtu úrgangsdekkjakurli. Borgarstjórnarmeirihlutinn hefur ekki viljað fallast á þessa tillögu en kýs að forgangsraða í þágu annarra verkefna, sem ekki eru aðkallandi en kosta mörg hundruð milljónir króna. Þar á meðal má nefna þrengingu Grensásvegar, viðbyggingu Grófarhúss og innanhúsframkvæmdir í ráðhúsinu,“ segir í bókuninni.

Þar er einnig óskað eftir því að borgarstjóri virði óskir foreldra barna sem æfa knattspyrnu á gervigrasvöllum með dekkjakurli, um að hitta þá og fara yfir málið.

„Borgarfulltrúar minnihlutans óska eindregið eftir því að borgarstjóri hitti umrædda foreldra sem fyrst og eru reiðubúnir til að hafa milligöngu um að koma slíkum fundi á ef á þarf að halda.“

Frétt mbl.is: Segir börn ekki njóta vafans

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert