Búið að koma öllum af ísnum

Jökulsárlón.
Jökulsárlón. Ómar Óskarsson

Allir ferðamennirnir sem voru úti á ísilögðu Jökulsárlóni eru komnir í land og varð engum meint af. Lónið er ísi lagt að hluta til og voru hátt í fimmtíu ferðamenn á rölti á ísnum í um tíu hópum. Lögregla og Björgunarfélag Hornafjarðar munu vakta svæðið fram í myrkur.

Frétt mbl.is: Fastir á ísjaka í Jökulsárlóni

Friðrik Jónas Friðriksson hjá Björgunarfélagi Hornafjarðar segir að vel hafi gengið að koma ferðamönnunum af ísnum. Fólkið var ekki í vandræðum heldur hafði það farið langt út á ísinn til að fylgjast með selum.  

Leiðsögumaður sem var staddur við lónið hafði hafist handa við að beina fólkinu af ísnum áður en björgunarsveitarmennirnir komu á vettvang en beiðni um aðstoð barst Neyðarlínunni rétt fyrir kl. þrjú í dag.

Spurður sagðist Friðrik Jónas ekki vita til þess að neinn hafi dottið í lónið. Hann segir fólkið ekki hafa verið hrætt. Þetta er stærsta útkall sveitarinnar af þessu tagi hingað til en fyrir nokkrum árum losnaði ísjaki og þurfti að fara á bát til að bjarga fjórum ferðamönnum.

Hann segir veðrið við Jökulsárlón dásamlegt; stafalogn, sól og heiðskírt. Lónið er ísi lagt að hluta til og segir Friðrik Jónas að grípa þurfi til ráðstafana á meðan fólk á svo greiða leið að lóninu. Lögregla og Björgunarfélag Hornafjarðar verða með vakt á svæðinu fram í myrkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert