Dickinson flýgur „rokkþotu“ Atlanta

Breiðþotan er merkt Iron Maiden í bak og fyrir.
Breiðþotan er merkt Iron Maiden í bak og fyrir. Mynd/Atlanta

Þungarokkssveitin heimsfræga Iron Maiden leggur af stað í tónleikaferð um heiminn á morgun í 747-breiðþotu flugfélagsins Atlanta.

„Þetta verður skemmtilegt ævintýri. Við erum búnir að vinna að þessu á bakvið tjöldin í fjóra til fimm mánuði,“ segir Baldvin Hermannsson, markaðsstjóri Atlanta, sem er staddur í Wales. Þangað kom þotan í nótt eftir að hafa verið í notkun í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Tónleikaferðin stendur yfir í 4-5 mánuði og hefst hún í Fort Lauderdale á Flórída 24. febrúar. 

Hinn ófrýnilegi Eddie.
Hinn ófrýnilegi Eddie.

Samningaviðræður á milli Atlanta og Iron Maiden um að leigja hljómsveitinni þotuna voru óvenjuflóknar þar sem öll tilskilin leyfi þurftu að vera til staðar. Vélin er merkt hljómsveitinni í bak og fyrir. Góðkunningi hennar, skrímslið Eddie, prýðir meðal annars stél breiðþotunnar.

Dickinson gekkst undir þjálfun hjá Atlanta 

Bruce Dickinson, söngvari Iron Maiden, mun fljúga vélinni. Til að fá leyfi til þess að fljúga svona stórri þotu  þurfti hann að gangast undir sérstaka þjálfun hjá Atlanta og að sögn Baldvins, stóð hann sig með stakri prýði. „Þetta er „par excellence“ flugmaður eins og hann hefur sýnt í gegnum tíðina. Hann er gríðarlega fróður og er með þetta allt upp á tíu,“ segir Baldvin en Dickinson flaug á sínum tíma fyrir Iceland Express.

Viðkomustaðirnir á tónleikaferðalaginu eru merktir á þotunni.
Viðkomustaðirnir á tónleikaferðalaginu eru merktir á þotunni. Mynd/Atlanta

Sannkölluð lúxus-tónleikaferð

Áhöfn vélarinnar verður frá Atlanta, auk þess sem flugrekstrardeild fyrirtækisins hefur lagt mikið púður í að breyta vélinni að innan svo að hún henti rokksveit af þessari stærðargráðu. Þannig verður efri hæðin eingöngu fyrir meðlimi Iron Maiden með fyrsta flokks sætum sem er hægt að leggja niður og breyta í rúm. Sextán manns komast fyrir í því rými. Á neðri hæðinni er búið að útbúa heilmikið rými þar sem fólk getur m.a. komið saman á barnum og rætt heimsins málefni.

Allur búnaðurinn sem þarf til tónleikahalds verður einnig um borð í vélinni, ásamt starfsmönnum sem vinna við tónleikana.  Hingað til hefur Iron Maiden leigt fragtflug til að flytja búnaðinn en með vél Atlanta slá Dickinson og félagar tvær flugur í einu höggi.

Opnar dyrnar fyrir fleiri VIP-verkefni

Að sögn Baldvins verða  70 til 130 manns í vélinni á meðan á tónleikaferðinni stendur.  Hann segir að Atlanta hafi gert lítið af því í gegnum tíðina að taka þátt í „lúxus“-verkefnum sem þessum. „Þetta er yngsta vélin í flotanum sem við erum með. Það var lagt mikið upp úr því að breyta henni að innan yfir í þetta VIP-útlit. Það er ekki nokkur spurning að þetta opnar dyrnar inn á fleiri slík verkefni,“ segir hann. „Það er markaður fyrir þessa þjónustu og vélin býður upp á spennandi möguleika í framtíðinni.“

Rokkarinn Bruce Dickinson er einnig fyrirtaks flugmaður.
Rokkarinn Bruce Dickinson er einnig fyrirtaks flugmaður. mbl.is/Þorkell Þorkelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert