Gagnsemi flensulyfja ótvíræð

AFP

Hópur sérfræðinga sem rannsakaði gagnsemi inflúensulyfja sem eru með markaðsleyfi í ríkjum EES segir að gagnsemi lyfjanna sé ótvíræð ef meðferð hæfist innan 48 klukkustunda eftir að einkenna inflúensu verður vart. Þetta kemur fram á vef landlæknisembættisins.

Inflúensulyfin oseltamivir (Tamiflu®) og zanamivir (Relenza®) eru með markaðsleyfi í Evrópusambandinu (ESB) og á evrópska efnahagssvæðinu (EES) um þessar mundir. Lyfin eru notuð til meðferðar og fyrirbyggjandi meðferðar á árstíðarbundinni inflúensu, heimsfaraldri inflúensu og fuglainflúensu. Talsverð umræða hefur verið um gagnsemi þessara lyfja og öryggi þeirra. Einnig hefur gagnsemi birgðahalds í viðbúnaði gegn heimsfaraldri inflúensu verið dregin í efa.

Ráðgjafnefnd ECDC og heilbrigðisöryggisnefnd ESB fóru því þess á leit við stofnunina að kalla til alþjóðlegan hóp sérfróðra aðila til að fara yfir öll tiltæk gögn um lyfin svo unnt væri að meta gagnsemi þeirra.

„Eftir að hafa farið yfir fyrirliggjandi gögn taldi sérfræðingahópurinn að gagnsemi lyfjanna væri ótvíræð ef meðferð hæfist innan 48 klukkustunda eftir að einkenna inflúensu verður vart. Í einni rannsókn bentu niðurstöður til þess að draga mætti úr dánartíðni af völdum alvarlegrar inflúensu þótt meðferð hæfist ekki fyrr en 4–5 dögum frá upphafi einkenna. Í öðrum rannsóknum var sýnt fram á marktæka fækkun tilfella á lungnabólgu, neðri loftvegasýkingum og sjúkrahúsinnlögnum í kjölfar inflúensu meðal þeirra sem fengu oseltamivir. Þessar rannsóknir miðuðust þó ekki við áhrif lyfjanna ef inflúensan olli alvarlegum sjúkdómi.

Sýnt var fram á gagnsemi fyrirbyggjandi meðferðar með oseltamivir og zanamivir við að draga úr staðfestri inflúensu A á hjúkrunarheimilum og heimilum.

Algengustu aukaverkanir oseltamivirs voru ógleði og uppköst.

Niðurstöður sérfræðingahóps ECDC staðfesta fyrri ráðleggingar stofnunarinnar og heilbrigðisyfirvalda um notkun inflúensulyfjanna og ekki sé ástæða til breytinga á þeim í ESB og EES ríkjunum. Ráðlagt er að veita sjúklingum með alvarlega inflúensu og þeim sem eru í aukinni áhættu á að fá alvarlega fylgikvilla meðferð og eftir atvikum fyrirbyggjandi meðferð vegna marktæks árangurs lyfjanna gegn inflúensu. Lyfin draga úr veirumagninu í líkamanum og eru tiltölulega örugg og aukaverkanir ekki alvarlegar.

Sérfræðingahópurinn styður opinbert birgðahald á inflúensulyfjum meðal Evrópuríkja í samræmi við viðbúnaðaráætlanir þeirra gegn heimsfaraldri inflúensu.

Sóttvarnalæknir ráðleggur notkun inflúensulyfjanna oseltamivir (Tamiflu®) og zanamivir (Relenza®) hér á landi í samræmi við ofangreindar ráðleggingar. Á Íslandi er birgðahald á þessum lyfjum til notkunar í heimsfaraldri inflúensu,“ segir á vef landlæknis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert