Landsmenn klæðist rauðu á morgun

Í tilefni GoRed átaksins eru Landspítalinn við Hringbraut og aðalbygging …
Í tilefni GoRed átaksins eru Landspítalinn við Hringbraut og aðalbygging Háskóla Íslands lýst upp í rauðum lit í febrúar eins og undanfarin ár. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Við vonumst eftir því að sem flestir láti sjá sig í rauðu á vinnustöðum og hvar sem er á morgun,“ segir Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir sérfræðingur í hjartasjúkdómum og formaður GoRed á Íslandi.

Á morgun, föstudag, verður „Klæðumst rauðu dagurinn” haldinn hátíðlegur þar sem landsmenn eru hvattir til að klæðast rauðum fatnaði til að sýna stuðning við alheimsátakið GoRed.

Átakið er á vegum World Heart Federation og hófst á Íslandi árið 2009. Átakið stendur yfir í viku í senn og í ár hófst það á Valentínusardag og lýkur á sunnudag, á sjálfan konudaginn.

„Markmið GoRed átaksins er að fræða konur um áhættuþætti og einkenni hjarta- og æðasjúkdóma og ýta undir rannsóknir á þessum sjúkómum hjá konum, sem eru ein algengasta dánarorsök kvenna á Íslandi líkt og annarsstaðar í heiminum. Konur eru almennt ekki meðvitaðar um þá staðreynd og hafa rannsóknir í Bandaríkjunum sýnt fram á það,“ segir Þórdís. 

Samkvæmt rannsóknum Hjartaverndar eykst tíðni áhættuþátta hjá konum eftir 50 ára aldur, og má þar nefna hækkaðan blóðþrýsting, hátt kólesteról, sykursýki og ofþyngd. „Við viljum vekja athygli á átakinu og að með forvörnum má draga verulega úr líkunum á hjarta- og æðasjúkdómum,“ segir Þórdís.

Hjúkrunarfræðingar munu klæðast rauðu á morgun og alla helgina og bjóða upp á fræðslu í Kringlunni í dag, fimmtudag, milli klukkan 17 og 20 og á laugardaginn milli klukkan 13 og 16 í Kringlunni og Smáralind.  

„GoRed fyrir konur er fyrst og fremst forvarnarátak og því ekki hugsað til að hræða fólk heldur til að fræða,“ segir Þórdís.

Hápunktur átaksins verður fræðslu- og skemmtistund sunnudaginn 21. febrúar í Iðnó þar sem veðrur að finna fræðslu- og skemmtiefni í bland. Húsið opnar klukkan 12:40 og er öllum opinn á meðan húsrúm leyfir.

Nánari upplýsingar um viðburðinn má finna á Facebook.

Borgarstjórn tók virkan þátt í GoRed átakinu í fyrra.
Borgarstjórn tók virkan þátt í GoRed átakinu í fyrra. Ljósmynd/Af Facebook vef Go Red fyrir konur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert