Verulega reynt á allt verklagið

Ólöf Nordal innanríkisráðherra.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra. mbl.is/Eggert

Ólöf Nordal innanríkisráðherra segir að ástæða sé til að fara betur yfir það verklag sem er viðhaft varðandi brottvísun flóttamanna; hægt sé að gera betur. „Ég bendi líka á að í þeim mikla fjölda sem til okkar streymir núna hefur reynt verulega á allt verklagið í kringum þessi mál,“ sagði ráðherra í óundribúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, spurði ráðherra út í málefni þriggja flóttamanna sem fengu upplýsingar um það í fyrradag að það ætti að vísa þeim úr landi. Til stóð að gera það í nótt en því var frestað. 

Eru þetta boðleg vinnubrögð?

„Þessir menn hafa verið hér í þrjú til fjögur ár. Allir eru þeir með dvalarleyfi og atvinnuleyfi. Það var enginn tími fyrir þá til að búa sig undir að vera sendir út í óvissuna,“ sagði Birgitta.

„Finnst ráðherranum svona vinnubrögð boðleg og sá stutti tími sem mönnunum var gefinn? Ljóst er að miðarnir voru keyptir 5. febrúar. Af hverju voru þeir ekki látnir vita strax,“ spurði Birgitta. 

Ráðuneytið enn að fóta sig eftir breytingar

Ólöf benti á, að ráðuneytið hafi ekki lengur með einstök mál að gera. „Má svo sem segja að í þeim breytta veruleika sé ráðuneytið svolítið að fóta sig því að engu að síður hefur ráðuneytið stefnumarkandi hlutverk í málefnum útlendinga. Það skiptir auðvitað máli fyrir ráðuneytið hvernig á málum er haldið. Í ljósi þeirra mála sem upp hafa komið teljum við nauðsynlegt fyrir ráðuneytið að gera sér betur grein fyrir því hver staða þess er þegar um er að ræða mál af þeim toga sem háttvirtur þingmaður nefnir hér, þegar um það er að ræða að ráðherra hefur ekki um þau upplýsingar í einstökum atriðum,“ sagði Ólöf. 

Hún benti ennfremur á, að Útlendingastofnun hafi í gærkvöldi tekið þá ávörðun að fresta því að senda þessa tilteknu menn burt, eftir samskipti við lögmenn þeirra.

Alltaf ráðrúm til að gera betur

„Ég hygg að í einhverjum tilvikum hafi mál viðkomandi aðila verið send til úrskurðarnefndarinnar sem er hinn rétti úrskurðaraðili til að meta hvernig þessum málum er háttað. Mér finnst það standa upp úr í þessu að við erum í þeim miklu breytingum sem hafa orðið í útlendingamálum enn dálítið að fóta okkur í því hvernig við eigum að halda utan um eftirfylgni með þessum tilteknu málum. Ráðuneytið hefur í kjölfar þeirra mála sem upp hafa komið undanfarið verið að glöggva sig betur á því verklagi sem viðhaft hefur verið árum saman í þessum málum, hvort hægt sé að gera það betra.

Ég hygg að það sé alltaf ráðrúm til að gera betur. Á næstunni munu í ráðuneytinu sjást þess merki hvaða skref verða tekin í þessu efni,“ sagð Ólöf.

Svona verklag endurtaki sig aldrei aftur

Birgitta benti á, að skortur væri á skýrum verklagsreglum þá sem séu að vinna með þennan málaflokk, sér í lagi þegar komi að brottvísunum.

„Mér finnst ómannúðlegt að viðkomandi sem á að vísa brott fái til dæmis ekki nein gögn í hendur um næstu skref. Mér finnst ómannúðlegur sá stutti tími sem fólk fær og er ég þá að tala almennt, ekki bara um þessa þrjá einstaklinga. Ég hef séð þetta gerast aftur og aftur og ég vona að í ráðuneytinu verði lögð mikil áhersla á að svona verklag endurtaki sig aldrei,“ sagði Birgitta. 

Meira en að segja það að standa frammi fyrir svona ákvörðunum

Ólöf segir að stjórnvöld telji að á hverjum tíma sé ástæða til að fara betur yfir það verklag sem þau viðhafi.

„Ég bendi líka á að í þeim mikla fjölda sem til okkar streymir núna hefur reynt verulega á allt verklagið í kringum þessi mál. Ég tek fram að mér finnst að menn verði aðeins að skilja ábyrgð þeirra sem starfa í þessu kerfi — svo við notum það orð yfir það sem við erum vön að gera — á málunum. Það er meira en að segja það að standa frammi fyrir þeim ákvörðunum sem við erum hér að fjalla um. Við treystum Útlendingastofnun til þess. Við þurfum líka að gæta þess að hún hafi þau tæki og tól sem þarf til þess að gera hlutina vandlega. Hér er líka um að ræða samspil milli ríkislögreglustjóra og Útlendingastofnunar. Það kann vel að vera að þar sé hægt að hnykkja betur á og upplýsa betur um hvernig hlutir fara fram. Ég ítreka að það er það sem við erum að fara yfir núna í ráðuneytinu,“ sagði innanríkisráðherra.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert