Feðgar dæmdir fyrir húsbrot

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás og húsbrot og annan karlmann í þrjátíu daga skilorðsbundið fangelsi fyrir húsbrot. Sá þriðji, sem einnig var ákærður í málinu, var sýknaður. Mennirnir tveir sem dæmdir voru hafa ekki áður sætt refsingu. Mennirnir sem hlutu dóm eru feðgar og var sonurinn 21 árs þegar brotið var framið.

Mennirnir þrír voru ákærðir fyrir húsbrot og sérstaklega hættulega líkamsárás en þeir ruddust inn á heimili í Garði þann 2. nóvember 2012 en þeim hafði áður verið meinað um inngöngu. Mennirnir réðust allir á mann sem þar var. Lagðist einn þeirra á manninn og kýldi hann ítrekað í andlitið með krepptum henfa.

Í kjölfarið tók sá sem dæmdur er fyrir líkamsrás í málinu gítartösku sem innihélt gítar og lamdi henni ítrekað í höfuð og líkama mannsins sem ráðist var á. Þriðji maðurinn sparkaði í búk mannsins og skallaði hann í andlitið.

Mennirnir þrír höfðu setið að drykkju á heimili feðganna kvöldið sem þeir réðust á manninn. Ákváðu þeir að heimsækja bróður mannsins sem ekki hlaut dóm í málinu. Þegar þeir komu þangað vildi brotaþoli ekki hleypa þeim inn.

Sonurinn gekkst skýlaust við líkamsárásinni sem honum var gefin að sök í málinu en faðir hann neitaði staðfastlega að hafa lagst ofan á brotaþola og kýlt hann í andlitið. Brotaþoli og vitni sem var á heimilinu þegar árásin var gerð breyttu báðir framburði sínum fyrir dómi frá því sem þeir sögðu í yfirheyrslu hjá lögreglu vegna málsins.

Í dómnum kemur fram að veruleg töf hafi orðið á meðferð málsins og var því ákveðið að skilorðsbinda refsinguna í ljósi þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert