Kannast ekkert við kostnaðarskiptingu

Forsvarsmenn Landstólpa þróunarfélags kannast ekkert við að gert hafi verið samkomulag við Minjastofnun um skiptingu kostnaðar vegna tímabundins flutnings gamalla hafnargarða af lóð félagsins við Reykjavíkurhöfn þar sem til stendur að reisa skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Til stendur að koma hafnargörðunum fyrir aftur í bílakjallara húsnæðisins.

Fram kemur í svari Sigrúnar Magnúsdóttur umhverfis- og auðlindaráðherra við skriflegri fyrirspurn frá Sigríði Ingibjörg Ingadóttur, þingmanni Samfylkingarinnar, að samkomulag hafi verið gert á milli Landstólpa þróunarfélags og Minjastofnunar sem feli í sér „að framkvæmdaraðilinn annist þessar framkvæmdir og ber hann því einnig þann kostnað sem þær hafa í för með sér. Minjastofnun Íslands mun hins vegar bera launakostnað vegna eftirlits stofnunarinnar með framkvæmdum.“

Gísli Steinar Gíslason, stjórnarformaður Landstólpa þróunarfélags, undrast svar ráðherrans enda hafi aðeins verið gert samkomulag við Minjastofnun um verklag í tengslum við flutning hafnargarðanna en ekki varðandi þann kostnað sem hann hefði í för með sér. Þvert á móti hafi félagið haldið til haga þeim rétti sínum að sækja það tjón sem það yrði fyrir vegna málsins síðar. Ekki liggi enda fyrir endanlega hver sá kostnaður verði. Þar sé ekki aðeins átt við beinan kostnað vegna flutningsins heldur einnig vegna þess að byggingaframkvæmdir hafi tafist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert