Má ekki heita Einarr

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Nöfnin Rósý, Dalrún, Lói og Gígí hafa öll verið samþykkt af Mannanafnanefnd. Hinsvegar fékk nafnið Einarr ekki samþykki í ljósi þess að rithátturinn, það að nafnið endi á-arr, er ekki í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls.

Úrskurðirnir voru kveðnir upp 5. febrúar. Kvenkynsnöfnin Rósý, Dalrún og Gígí voru öll samþykkt þar sem þau taka íslenskri beygingu í eignarfalli. Karlkynsnafnið Lói var einnig samþykkt af sömu ástæðum. Þau hafa öll verið færð í mannanafnaskrá.

Í úrskurði mannanafnanefndar um nafnið Einarr kemur fram að til þess að hægt sé að samþykkja nýtt eiginnafn á mannanafnaskrá þarf það að geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Þá má nafnið ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi og skal rita það í  samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.

Í þessu tilviki reynir á skilyrðið um ritháttinn en nafnið endar eins og fyrr segir á –arr sem er ekki í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls.

„Á 14. öld  styttist „langt r“ í bakstöðu (þ.e. aftast í orði) í áherslulitlum endingum. Dæmi: Ragnarr > Ragnar, hamarr > hamar, jöfurr > jöfur. Slík orð eru ævinlega rituð með einu r-i skv. stafsetningu nútímamáls. „Langt r“ kemur hins vegar fyrir í bakstöðu í áhersluatkvæðum í ýmsum orðum, sbr. kjarr og kurr. Dæmi um rithátt sem fallist hefur verið á af hálfu mannanafnanefndar í samræmi við framangreint er millinafnið Gnarr,“ segir í úrskurðinum.

Þar segir jafnframt að eiginnafnið Einar algengt að fornu og nýju og fjölmörg dæmi eru um nefnifallsmyndina Einarr í nútímaútgáfum fornrita. „Enginn Íslendingur hefur verið skráður á 20. öld með ritháttinn Einarr samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá, og því hefur engin hefð skapast um þann rithátt,“ segir í úrskurðinum og þá er bent á að nafnið þannig ritað hafi ekki verið borið af Íslendingum í fjölskyldu umsækjanda.

Hér má sjá úrskurð Mannanafnanefndar um Einarr í heild sinni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert