Siglufjarðarvegi lokað vegna snjóflóða

Búið er að loka Siglufjarðarvegi vegna snjóflóða. Veður fer versnandi …
Búið er að loka Siglufjarðarvegi vegna snjóflóða. Veður fer versnandi á Norðurlandi. mbl.is/Sigurður Ægisson

Ört versnandi ferðaveður er á norðvesturhluta landsins í kvöld samfara mikilli snjókomu og hvassri norðanátt. Dimm hríð er á fjallvegum norðvestanlands og talsverð snjókoma á Norðurlandi. Þá hefur Siglufjarðarvegi verið lokað vegna snjóflóða. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Á morgun er búist við viðvarandi norðan hvassviðri eða stormur og talsverðri snjókomu og skafrenningi á öllum norður helmingi landsins.

Hálkublettir og éljagangur eru á Sandsskeiði og Hellisheiði en snjóþekja í Þrengslum. Á Suðurlandi er víðast hvar nokkur hálka eða hálkublettir. Hálkublettir eru á Suðurstrandavegi. Það er hálka og hálkublettir á flestum vegum á Vesturlandi og sumstaðar éljagangur.

Á Vestfjörðum er hálka og snjóþekja á vegum og éljagangur mjög víða og sumstaðar snjókoma.

Á Norðurlandi er ýmist hálka eða snjóþekja. Éljagangur, snjókoma og skafrenningur er nokkuð víða á Norðurlandi. Þæfingsfærð, éljagangur og snjókoma er á fjallvegum. Lokað er á Siglufjarðarvegi vegna snjóflóða. Þungfært, þæfingur og snjókoma er á flestum vegum á Norðausturlandi. Ófært er á Hólasandi.

Hálka og snjóþekja á velflestum vegum á Austur- og Suðausturlandi og þæfingsfærð og skafrenningur á fjallvegum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert