Eigum OECD-met í þunglyndislyfjaneyslu

Íslendingar nota mest allra OECD-þjóða af þunglyndislyfjum.
Íslendingar nota mest allra OECD-þjóða af þunglyndislyfjum. Friðrik Tryggvason

Íslendingar nota mest allra OECD-þjóða af þunglyndislyfjum og er notkunin um tvöfalt meiri en meðaltal OECD-þjóða. 

Ólafur B. Einarsson, verkefnisstjóri hjá Embætti landlæknis segir engar haldbærar skýringar vera sem geti úrskýrt þennan mun á Íslandi og öðrum þjóðum. Fyllstu ástæða sé til að kanna þennan mun, m.a. hvort verið sé að veita hér öðruvísi þjónustu eða hvort eftirlit með ávísunum lyfja sé strangara í öðrum löndum.

Árið 2014 fengu tæplega 41.000 Íslendingar, 12,5% þjóðarinnar, ávísað þunglyndislyfjum a.m.k. einu sinni á árinu. Þetta er talsvert meiri notkun en á hinum löndunum á Norðurlöndum og umtalsvert meira en í öðrum OECD-löndum þar sem meðaltalið árið 2013 var 5,8%.

En erum við svona miklu þunglyndari en aðrar þjóðir? „Það er óvíst hvort þetta endurspegli raunverulegt algengi þunglyndis,“ segir Ólafur. Hann segir að í þessu sambandi hafi verið bent á að lyfin séu stundum notuð við öðru en þunglyndi, t.d. ADHD. Það skýri þó ekki þennan mun á Íslandi og öðrum löndum, því það sama er gert í öðrum löndum.

Minni geðlæknaþjónusta hér

Ólafur segir skort á þjónustu í geðheilbrigðismálum geta útskýrt þessa notkun að einhverju leyti. Tölur um geðlæknaþjónustu á sjúkrahúsum bendi til þess að hún sé talsvert minni hér en á hinum löndunum á Norðurlöndum, t.d. séu fjórfalt fleiri legudagar skráðir á geðdeildum í Svíþjóð en hér. „Reyndar erum við hlutfallslega með svipaðan fjölda sérfræðinga í geðlækningum og nágrannaþjóðirnar. En kannski er verið að þrengja um of að þessari þjónustu á sjúkrahúsunum sem á að sinna þeim sem verst eru staddir.“

Árið 2014 fengu um 30.000 Íslendingar ávísað sterkum verkjalyfjum, 33.000 fengu svefnlyf og 7.500 fengu örvandi lyf. Ólafur segir að notkun sterkra verkjalyfja á Norðurlöndunum sé hæst á Íslandi. „Verkjalyfjanotkun er flókið fyrirbæri og sumir taka þessi lyf vegna þess að þeir eru að glíma við mjög erfiða sjúkdóma. En við þurfum að spyrja okkur hvers vegna notkunin sé svona miklu almennari hér en annars staðar.“

Að sögn Ólafs hefur svefnlyfjanotkun hér á landi aðeins dregist saman. Hún sé þó enn töluvert meiri hér en hjá öðrum Norðurlandaþjóðum.

Þegar notkun tauga- og geðlyfja er skoðuð á vef Hagstofu Íslands sést gríðarleg aukning. Árið 1989 notuðu 12,9% Íslendinga slík lyf, en 2014 var hlutfallið komið upp í 35,7%. Þetta er næstum því þreföldun. Undir þennan lyfjaflokk falla m.a. þunglyndislyf, verkja- og svefnlyf og kvíðastillandi lyf. Ólafur segir notkun þessara lyfja einnig hafa aukist meðal annarra þjóða, en hún sé hlutfallslega meiri hér á landi.

„Mörg þessara lyfja eru misnotuð og margir einstaklingar glíma við alvarlega fíkn vegna þeirra. Margir reyna að fá meira magn en telst eðlilegt með ýmsum leiðum. Í gegnum tíðina hefur það verið vandamál að einstaklingar fara til margra lækna til að fá ávísað sömu ávanabindandi lyfjum en við hjá Embætti landlæknis bindum vonir við að aðgangur lækna að lyfjagagnagrunni takmarki það. Það þarf átak til að þessi mál fara í betri farveg,“ segir Ólafur.

Gæti valdið umferðaróhöppum

Hann segir að skoða þurfi áhrif þessarar notkunar eins og hún er í dag á aðra þætti og nefnir þá sérstaklega hvort rekja megi umferðaróhöpp hér á landi til hennar.

„Erlendar rannsóknir hafa sýnt að tiltekinn fjöldi umferðaróhappa orsakast af lyfjaakstri. Til eru tölur frá löndum þar sem lyfjanotkun er talsvert minni en hér og því er ástæða til að skoða þessi tengsl hér á landi. Mörg ávanabindandi lyf hafa ýmsar verkanir sem geta t.d. skert getu okkar til að keyra ökutæki.“

Erlendar rannsóknir hafa sýnt að tiltekinn fjöldi umferðaróhappa orsakast af …
Erlendar rannsóknir hafa sýnt að tiltekinn fjöldi umferðaróhappa orsakast af lyfjaakstri. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir
Árið 2014 fengu um 30.000 Íslendingar ávísað sterkum verkjalyfjum, 33.000 …
Árið 2014 fengu um 30.000 Íslendingar ávísað sterkum verkjalyfjum, 33.000 fengu svefnlyf og 7.500 fengu örvandi lyf. Ásdís Ásgeirsdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert