Spegill, spegill, herm þú hver – hver er sá fegursti í heimi hér?: Fallegasti bíll heims

Þá er niðurstaðan fengin, og þarf ekki að þræta um það lengur; en fallegasti bíllinn sem smíðaður var á nýliðnu ári, 2015, var Renault Talisman.

Það var allavega niðurstaða dómnefndar hinnar árlegu hátíðar „Festival Automobile International (FAI)“ sem haldin var í París undir lok janúar. Fór hún nú fram 31. árið í röð, eða frá og með 1986.

Það er sem sagt útlit og hönnun sem er í öndvegi á hátíðinni, ekki losun gróðurhúsalofts, aksturseiginleikar og véltækni þótt sigurbíllinn gæti einnig verið sá sleipasti í þeim efnum. Er Talisman sagður búa yfir einstökum aksturseiginleikum og tæknilega er hann afar vel búinn.

Renault fékk einnig aðra viðurkenningu á hátíðinni, þ.e. fyrir stílfærslu yfirbyggingarinnar. Var yfirhönnuður Renault, Laurens van den Acker, útnefndur sigurvegari í keppninni um hönnunartitilinn sem veittur er einnig á hátíðinni í París.

Það voru engir aukvisar sem til álita voru en á lokasprettinum stóð valið um fallegasta bíl ársins milli Jaguar F-Pace, Mazda CX-3, Mercedes C-Klasse Coupe, Mercedes GLC, Mini Clubman auk Renault Talisman. Sá síðastnefndi stakk af með sigurinn. Það gerði Mercedes SL 63 AMG í fyrra.

Það verður ekki amalegt fyrir umboðsaðila Renault á Íslandi, BL, að geta kynnt Talisman sem fallegasta bíl heims þegar að markaðssetningu hans hér á landi kemur.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert