Fullyrðir að hver króna sé vel nýtt

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, við brautskráninguna í dag.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, við brautskráninguna í dag. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, fullyrðir að hver króna sem sett er í háskólakerfið sé vel nýtt. Erlendar  og innlendar úttektir hafi ítrekað staðfest að Háskóli Íslands sé afar skilvirk og vel rekin stofnun.

Þetta sagði Jón Atli við brautskráningu rúmlega 400 kandídata frá Háskóla Íslands í Háskólabíói í dag. Í fyrsta brautskráningarávarpi sínu í embætti rektors lagði hann áherslu á fjármögnun skólans

„Óeigingjarnt framlag starfsfólks og þrautseigja við oft erfiðar aðstæður hefur stuðlað að hagvæmni í rekstri og tryggt gæði háskólastarfsins. En við núverandi fjármögnun verður ekki lengur búið eigi íslenskir háskólar að standast samkeppni á alþjóðavettvangi á næstu árum. Stjórnvöld verða því að forgangsraða í þágu háskólastigsins.

Ekki nægir að standa vörð um það sem áunnist hefur, sækja þarf fram, ekki síst í rannsóknum. Rannsóknir hafa ótvírætt gildi í sjálfu sér, en þær eru um leið undirstaða bættrar kennslu, þær dýpka námið, fróðleiksþorsti nemenda eykst og sjóndeildarhringur þeirra víkkar þegar þeir verða vitni að því hvernig ný þekking verður til og taka þátt í öflun hennar.

Rannsóknir eru einnig grundvöllur bættra lífskjara, þeim fylgja iðulega hagnýtar uppgötvanir í ólíkum fræðigreinum og þekkingarsköpunin leiðir til nýrra fyrirtækja og nýrra starfa,“ sagði Jón Atli. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert