Spá stórhríð fyrir norðan

„Von er á vaxandi norðanátt fram eftir degi með auknum vindi en í kvöld má búast við hvassvirði 13-20 m/s um allt land,“ segir Birta Líf Kristinsdóttir, vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Nú geisar stormur norðvestan til en hægur vindur annars staðar á landinu. Snjókoma og skafrenningur er fyrir norðan en yfirleitt þurrt sunnan til á landinu en stöku él.

Birta Líf segir að með kvöldinu muni hvessa fyrir norðan með snjókomu sem auka muni líkur á snjóflóðahættu. Hættustig er á norðanverðum Vestfjörðum og utanverðum Tröllaskaga á svæðinu í kringum Siglufjörð og Ólafsfjörð en snjóflóðavakt Veðurstofunnar fylgist vel með.

Hún segir veðrið verst fyrir norðan og jafna megi því við stórhríð. Í nótt fer svo að hvessa suðaustan lands og búast má við stormi í nótt og fram eftir morgundeginum. Á Austfjörðum mun einnig hvessa í nótt og á morgun mun bæta í úrkomu. í Reykjavík má búast við ákveðnari éljum í kvöld. 

Búast má við erfiðri færð um norðanvert landið og austan nú í kvöld. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er búið að loka Siglufjarðavegi og Súðavíkurhlíð vegna snjóflóða. Þá er Holtavörðuheiði einnig lokuð um óákveðinn tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert