Vilja ábyrgðina hjá móðurfélaginu

Már segir að stéttarfélög hafi ýtt á keðjuábyrgð þar sem …
Már segir að stéttarfélög hafi ýtt á keðjuábyrgð þar sem verkkaupandi er ábyrgur fyrir mögulegum brotum undirverktaka. mbl.is/Jónas Erlendsson

Það er samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja að ráða ekki önnur fyrirtæki sem undirverktaka sem hafa áður verið staðin að því að fara ekki að lögum og reglum.

Þetta segir Már Guðnason, formaður Verkalýðsfélags Suðurlands, en áður hafði komið upp lögreglumál vegna starfsmanna hjá fyrirtæki mannsins sem handtekinn var og úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna gruns um mansal í Vík í Mýrdal í á fimmtudaginn.

Síðasta haust kom upp mál tengt félagi mannsins þar sem talið var að hann væri með starfsfólk í vinnu sem ekki hefði réttindi til að vinna hér á landi. Málið tók snöggan endi þegar kom í ljós að hann hafði komið fólkinu aftur úr landi að sögn Más.

Segir hann alla í bæjarfélaginu hafa vitað af þessu máli á sínum tíma, þar með talið forsvarsmenn Icewear/Drífu sem sendu frá sér tilkynningu í dag um að engin vitneskja hefði verið hjá fyrirtækinu um atferli viðkomandi aðila.

„Auðvitað vissu þeir af þessu. Mér finnst ótrúlegt að þeir segist ekki hafa vitað af þessu,“ segir Már um að forsvarsmenn Icewear/Drífu hafi ekki vitað um fyrri brot hjá fyrirtæki mannsins.

Víða pottur brotinn

Már segir að stéttarfélög hafi undanfarið ýtt á eftir keðjuábyrgð, en það felur í sér að kaupandi þjónustu geti ekki fríað sig ábyrgð þegar kemur að brotum undirverktaka.

Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, segir að þetta sé hluti af því að fyrirtæki séu siðferðilega ábyrg. Segir hún mikilvægt að koma upp fyrirkomulagi þar sem hægt sé að gera móðurfélög ábyrg. „Í dag gerir þú tilboð, færð undirverktaka og fríar þig alveg af allri ábyrgð,“ segir Drífa.

Már telur að víða sé pottur brotinn í þessum málum, þó félagið viti ekki af öðrum dæmum jafn slæmum og þessum. Hann á von á því að félagið muni fylgja þessu máli eftir, enda sé einnig um að ræða brot á kjarasamningum ásamt því að maðurinn sé grunaður um mansal.

Segir hann fyrirtæki sem stundi það að fá fólk til landsins til að stunda ólöglega vinnu eða greiði starfsfólki undir lágmarkslaunum séu ekki að greiða skatta og skyldur til þjóðfélagsins. Í stað þess þurfi aðrir einstaklingar og fyrirtæki að greiða í sameiginlega sjóði fyrir þau og það sé eitthvað sem þurfi að koma í veg fyrir.

Már Guðnason, formaður Verkalýðsfélags Suðurlands á Hellu.
Már Guðnason, formaður Verkalýðsfélags Suðurlands á Hellu. Friðrik Tryggvason
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert