Sóttu fisk út um alla móa

Fiskurinn var út um alla móa, en meðlimum Skagfirðingasveit gekk …
Fiskurinn var út um alla móa, en meðlimum Skagfirðingasveit gekk vel að koma honum aftur í körin. Mynd/Baldur Ingi Baldursson

Það er ýmislegt sem björgunarsveitirnar taka sér fyrir hendur og það sannaðist í gær þegar Skagfirðingasveit fór í verðmætabjörgun eftir að fiskflutningabíll fór út af veginum rétt við Hraun í Fljótum í Skagafirði. Tólf vaskir meðlimir sveitarinnar mættu á staðinn og voru í sjö klukkustundir að sækja fiskinn sem hafði dreifst víða um móa.

Baldur Ingi Baldursson, formaður Skagfirðingasveitar, segir í samtali við mbl.is að um sé að ræða launaða vinnu fyrir sveitina, en það er tryggingafélag sem kallar sveitina út og athugar hvort hún vilji taka verkefnið að sér.

Tugir kara af fiski voru í bílnum og því um gríðarleg verðmæti að ræða. Baldur segir að þeim hafi tekist að ná mestöllu upp. Fiskurinn var svo sendur í áframhaldandi skoðun til að ganga úr skugga um að enn sé um söluvænlega vöru að ræða.

Baldur segir reyndar að aðstæðurnar hafi verið hagstæðar. „Þetta voru bestu hugsanlegu aðstæður fyrir fiskinn,“ segir hann, en eins og sjá má á meðfylgjandi mynd og myndbandi er mikill snjór á staðnum og því lenti fiskurinn í ágætis kælingu.

Bíllinn var að koma frá Siglufirði og var í raun mun nær Siglufirði en Sauðárkróki þaðan sem Skagfirðingasveit gerir út. Baldur segir að vegna snjóflóðahættu á leiðinni frá Siglufirði í Fljótin hafi þó verið ákveðið að fá Skagfirðingasveit í þetta skiptið.

Þau eru fjölbreytt verkefnin sem sveitin fær. Í gær var útkall þar sem 13 manns mættu í verðmætabjörgun.

Posted by Björgunarsveitin Skagfirðingasveit on Sunday, 21 February 2016
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert