Það blómstrar sem maður brennur fyrir

Aðalheiður Héðinsdóttir, forstjóri Kaffitárs.
Aðalheiður Héðinsdóttir, forstjóri Kaffitárs. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Þegar Aðalheiður Héðinsdóttir byrjaði að brenna kaffibaunir á efri hæð trésmiðju föður síns árið 1990 var kaffimenning Íslendinga talsvert fátæklegri en í dag þar sem kaffihús þótti til að mynda fremur nýstárlegur staður til að eyða tíma sínum á.

Kaffibrennsla Aðalheiðar í Njarðvík vatt upp á sig og varð smátt og smátt að því sem við þekkjum í dag sem Kaffitár, með kaffibrennslu og ótal kaffihúsum og hefur Aðalheiður nú verið forstjóri fyrirtækisins í 26 ár. Aðalheiður sjálf sigldi ekki á neinum viðskiptafleka inn í þennan heim og þekkti hvorki haus né sporð á kaupum á eyrinni. En það lærðist.

„Nei, ég kem ekki úr viðskiptaumhverfi þótt segja megi að alltaf hafi verið mikið líf og stúss á æskuheimili mínu í Keflavík. Faðir minn, Héðinn Skarphéðinsson, var húsasmiður og móðir mín, Bergþóra Bergsteinsdóttir, var alltaf á fullu í einhverju meðfram því að vera heimavinnandi húsmóðir. Ég man ekki öðruvísi tíma en hún hafi verið að stússast í öllum félagsstörfum, setið í stjórn foreldrafélagsins og komið nálægt því sem hægt var að koma nálægt. Fyrir utan að ala mig upp við góðan mat sem og miklar umræður um mat tók mamma líka að sér skipuleggja veislur fyrir aðra með vinkonum sínum,“ segir Aðalheiður um bakgrunn sinn.

„Þegar ég byrjaði í þessu þekkti ég í raun ekki neinn sem var í fyrirtækjarekstri. Ein vinkona mín átti búð og þar með er það líklega upptalið. Ég var hvorki með bakland né tengslanet í viðskiptum. Ég hafði ekki tekið bókfærslu í skólanum og viðurkenni að ég vissi varla muninn á debet og kredit. Hins vegar bjó ég að því að hafa skýrar hugmyndir og sýn á það sem ég vildi gera og þá finnur maður, held ég, út úr þessu smátt og smátt. Ég á stóran vinahóp og ég tel að það hafi hjálpað. Sem betur fer búum við að því hérlendis að allar boðleiðir eru stuttar og ef mann vantar einhvern til að vinna með sér úr fagi sem maður þekkir ekki til í þá er auðvelt að spyrjast fyrir hjá þeim sem maður þekkir og fá góðar ábendingar. Ég hef talað fyrir því í gegnum árin að í viðskiptum er afar mikilvægt að byggja sér upp gott tengslanet. Mín reynsla er að það eru allir boðnir og búnir til að greiða manni leið og hjálpa.“

Ung og uppreisnargjörn

Aðalheiður hafði þó reynslu af stjórnunarstörfum þótt af allt öðru sviði væri. Hún er lærð fóstra og sinnti starfi leikskólastjóra um tíma. Þegar hún og eiginmaður hennar, Eiríkur Hilmarsson, ákváðu að flytjast til Bandaríkjanna þar sem Eiríkur fór í doktorsnám í stjórnun menntamála var Aðalheiður þó farin að horfa í aðrar áttir og á þessum tímapunkti ákveðin að nýta dvölina úti til að eignast börn en þá áttu þau hjónin eina dóttur.

„Ég fann ekki löngun til að fara út í meira nám úti og var satt best að segja komin með nóg af leikskólamálunum. Þetta voru allt aðrir tímar þar sem kerfið leit á leikskólana sem geymslustaði. Alengt var viðhorfið að það væri nóg að hafa einfaldlega góðar konur til að gæta barnanna og búið.

Ég var ung og uppreisnargjörn og stóð í stappi um ýmislegt við bæjaryfirvöld og yfirmenn sem mér fannst ábótavant og hluti af því var að sérfræðiþekking væri metin sem mikilvæg inni í leikskólunum. Þetta snerist um ýmislegt, allt frá því að ég vildi ekki láta reisa risagirðingu sem tryggja átti öryggi barnanna en á kostnað þess að þau sáu ekki nánasta umhverfi sitt. Ég taldi mig geta borið ábyrgð á börnunum án þess að það væri forræðishyggja yfir öllu. Svo fannst mér ósanngjarnt hvernig ákveðnar atvinnustéttir gengu fyrir með pláss fyrir börnin sín á leikskólana. Landslagið í þessum málum er sem betur fer mjög breytt.“

Eftir á segir Aðalheiður að líklega hefði það verið gáfulegra að vera diplómatísk, hún fékk reisupassann en var síðan ráðin aftur. Hún hefði ekki viljað taka öllu sitjandi og hljóðalaust. „Eitt það besta við ungt fólk í dag finnst mér að þau eru gagnrýnin í hugsun sinni og mér finnst það afar mikilvægt.“

Varð áfjáð í að læra meira

Í Bandaríkjunum fannst Aðalheiði stórkostlegt að vera heimavinnandi húsmóðir. Þar uppgötvaði hún það sem síðar varð lifibrauð hennar, kaffi, og lét sér ekki duga að sitja á kaffihúsum og sötra kaffið heldur las hún kaffibækur spjaldanna á milli og varð áfjáð í að læra eitthvað meira um fagið. Þau hjónin voru úti í fimm ár og síðasta árið bað hún mann sem hún var vön að kaupa kaffið sitt hjá að kenna sér að brenna kaffibaunir.

„Ég var ekki með græna kortið en mér var alveg sama þótt ég ynni kauplaust fyrir hann. Við komumst að ágætis samkomulagi – hann vantaði starfsfólk og þarna fékk ég tækifæri til að öðlast þekkingu og menntun í fræðunum. Ég setti það engan veginn fyrir mig að sópa staðinn hjá honum – það getur skilað góðum hlutum að sópa gólf í heilan dag, maður veit aldrei, og ég held að maður megi ekkert vera að setja slíkt fyrir sig. En þarna lærði ég að smakka kaffið sem er grunnurinn að þessu öllu og hann kenndi mér líka öguð vinnubrögð.“

Þegar Aðalheiður og Eiríkur snéru heim til Íslands ákváðu þau í kjölfarið að nýta þessa þekkingu Aðalheiður og stofnuðu fyrirtæki. Aðalheiður sinnti því fyrirtæki sem fyrst og fremst sinni vinnu en Eiríkur réð sig í starf þar sem hann gat sinnt börnunum eftir skóla sem voru þá nokkurra ára gömul.

„Nú sá hann um þann pakka sem ég hefði sinnt úti þótt Eiríkur sæi að vísu að mestu leyti um það sem snéri að fjárhagshliðinni. Hann er klár í því og nokkuð djarfur og það gagnaðist, en ég hugsa að mínir styrkleikar séu þrautseigja, að vera úrræðagóð og eiga auðvelt með að fá hugmyndir. Við vorum ágætis blanda. Það að Eiríkur var með fast starf gerði það líka það að verkum að við þurftum ekki að taka fé út úr rekstrinum fyrir heimilið og tókum ekki stórt lán. Öðruvísi held ég að svona sé illmögulegt.“

Fyrstu fimmtán árin var 30-40% vöxtur í fyrirtækinu á hverju ári og síðustu árin hefur fyrirtækið haldið sér á stöðugri braut. „Við vissum að yfirbyggingin mætti aldrei verða slík að það væri ekki hægt að aðlaga sig að einhverju óvæntu í rekstrinum. Árið 1993 var til dæmis mikið frost í Brasilíu sem setti strik á uppskeruna og kaffiverðið hækkaði um 300% á mánuði. Þá var ekki annað að gera en að hækka vörurnar líka hér heima. Við misstum fullt af kúnnum um tíma en maður tók því og fór í staðinn fyrr heim úr vinnunni og pabbi kom til móts við okkur með mjög sanngjarni leigu.“

Kaffihúsamenningin var döpur

Það kom Aðalheiði talsvert á óvart hverjum það reyndist auðvelt að selja kaffið til að byrja með. Kaffið sem hún sá alltaf fyrir sér að yrði „high-end“ vara var ekki keypt af dýrustu veitingastöðunum sem hún hélt að yrði auðvelt að sannfæra um að kæmi stöðunum til góða, heldur voru það fyrirtæki svo sem Skipasmíðastöð Suðurnesja, fullt af körlum sem voru vanir að drekka sinn uppáhelling, sem voru með þeim fyrstu sem keyptu kaffið og þá komu frystihúsin sterk inn.

Fyrsta kaffihúsið opnaði Aðalheiður svo árið 1993 í pínulitlu 13 m² plássi í Kringlunni. Næsta kaffihús var opnað í Bankastræti en starfsmenn fyrirtækisins eru um 150 í dag.

„Á þessum tíma var kaffihúsamenningin frekar döpur og þetta var svolítið fyndið – því samt var fólk mikið að segja okkur til um hvernig við ættum að útbúa kaffið svo rétt væri. Í mörg ár var fólk að vilja hafa vit fyrir okkur, svona væri þetta nú gert í Þýskalandi og Ítalíu og við brostum bara og sögðum að já, en á Kaffitári gerðum við þetta svona. Smám saman vann maður á með sitt handbragð og í dag er enginn sem segir okkur hvernig á að hella upp á enda eigum við orðið þónokkuð marga Íslandsmeistara í kaffigerð.“

Sá Aðalheiður strax fyrir sér eftir dvölina í Bandaríkjunum að hún vildi umbylta kaffimenningunni hérlendis?

„Nei, en ég sá það samt fyrir mér að ég vildi gera þetta af fagmennsku og engu hálfkáki. Ég fór því fljótlega í það að sækja kaffisýningar og ráðstefnur erlendis, heimsækja kaffiræktunarlöndin og byggja mig upp faglega. Það varð því fljótlega úr að ég kom til dæmis kaffibarþjónakeppnunum á koppinn en ég hafði samband við stelpu í Noregi sem hafði séð um slíkar keppnir þar úti og fékk hana hingað til lands og Íslandsmeistaramótið var haldið. Þarna varð til heitið kaffibarþjónn.

Kaffi sem slíkt er þó ekki bara efni í fræði því fyrirbærið sem það er drukkið á, kaffihús, hefur orðið efni í félagsfræðilegar rannsóknir. Starbucks segir gjarnan að kaffihúsið sé þriðji staðurinn í tilverunni, það er að segja að okkar tilveru sé eytt á heimilinu, í vinnunni og svo á kaffihúsinu. Hægt er að lesa í neysluvenjur og þróun samfélagsins í gegnum það hvernig umhverfi kaffihúsa og innviðir hafa breyst.“

Má þar nefna sem dæmi hvernig gluggarnir hafa minnkað og stækkað, borð og stólar tekið breytingum. Þjóðfélagslega sögu má lesa í gegnum þetta allt, svo sem þegar stólarnir fóru að snúa út að götunni á kaffihúsum Parísarborgar. Þá var það vegna þess að fólk vildi láta sjá að það hefði fé á milli fingranna og gæti leyft sér að sitja þarna og njóta veitinga. Svipaða sögu er að segja af gluggunum sem á sama tíma fóru að ná alveg niður í gólf og upp úr til að gestir sæjust enn betur.

„Á kaffihúsum nútímans skipta borðin og stólarnir töluvert meira máli en áður þar sem fólk er farið að vinna mikið á þessum stöðum. Þessi húsgögn þurfa að vera stöðug fyrir tölvunotkun og einu sinni hefði mér dugað eitt tengi fyrir jólaseríu. Í dag er þetta eitt lykilatriðanna – næg tengi.“

Fara fram á aðför

Kaffitár rak í mörg ár tvö kaffihús í Flugstöð Leifs Eiríkssonar en Aðalheiður segir fyrirtækið hafa fengið þungt högg þegar það fékk ekki áframhaldandi rekstrarleyfi í flugstöðinni í lok árs 2014 en stór hluti tekna fyrirtækisins kom þá frá kaffihúsunum.

Það mál hefur haft talsverða eftirmála. Eftir að niðurstaða lá fyrir þar sem alþjóðlega kaffihúsið Segafredo var opnað í staðinn bað Aðalheiður um að fá að sjá gögn og upplýsingar frá þeim sem tóku þátt í svokallaðri forvalsleið. Þessar upplýsingar hefur Isavia neitað að afhenda þrátt fyrir að Úrskurðarnefnd upplýsingamála hafi tvisvar komist að þeirri niðurstöðu að Isavia beri að afhenda Kaffitári gögnin. Rök nefndarinnar eru þau að Kaffitár hafi ekki fengið rökstuðning fyrir einkunnagjöfinni sem réð því hvort þau fengju verslunarpláss. Til þess að geta áttað sig á röksemdunum hafi fyrirtækinu verið nauðsynlegt að sjá samanburðinn.

Isavia höfðaði ógildingarmál vegna niðurstöðu nefndarinnar og óskaði eftir flýtimeðferð vegna málsins en því hefur verið hafnað í héraði og Hæstarétti. Forstjóri Isavia gaf það út í október á síðasta ári í Vikulokunum á Rás 1 að hann ætlaði ekki að skila gögnunum en Isavia vildi álit EFTA um samkeppnislöggjöf svæðisins þar sem fyrirtækið segir það varða samkeppnishagsmuni fyrirtækjanna er tóku þátt í forvalinu um verslunarrýmið að birta Kaffitári tilteknar upplýsingar úr því. Fyrr í mánuðinum staðfesti Hæstiréttur úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur að slíkt sé ekki til þess fallið að leysa úr málinu.

Aðalheiður segir að fyrst þeir neiti enn að afhenda gögnin sé eina leiðin að leita til sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu og krefjast þess að gögnin verði sótt með aðför en í maí er munnlegur málflutningur í Héraðsdómi þar sem úrskurðað verður í því.

„Þar sem við fáum engin svör við spurningu sem ég hef spurt í eitt og hálft ár hefur maður ástæðu til að ætla að það sé ekki allt með felldu. Við höfðum rekið tvö kaffihús í Leifsstöð í 10 ár og þekktum alla innviði, fermetraverð, viðhalds- og starfsmannakostnað og slíkt. Samt fengum við bara þrjá í einkunn fyrir fjárfestingu og viðhald. Það sem ég segi er að gott og vel – kannski töpuðum við í samkeppninni og þá er það bara þannig. En bara prinsippsins vegna viljum við vita af hverju og rök Úrskurðarnefndar upplýsingamála eru einmitt þau að okkur sé nauðsynlegt að sjá önnur gögn og samanburðinn til að hægt sé að átta sig á röksemdum Isavia fyrir ákvörðunni.

Ekkert stjórnvald eða dómstóll hefur hingað til tekið undir sjónarmið Isavia. Isavia heyrir undir upplýsingalög, eins og önnur íslensk félög í eigu ríkisins og ber að eiga til gögn og afhenda þau fái þau úrskurð þess efnis. Undir rekstri þessa máls hefur félagið upplýst að það hefur brotið lög um skjalavörslu og virti ekki grunnreglur útboðs- og stjórnsýsluréttar.“

Aðalheiður segir að þetta geti ekki snúist um að heita fyrirtækjum í samkeppninni trúnaði. „Það er ekkert hægt að láta þetta snúast um að þú getir gert einhvern einkasamning um trúnað sem stangast á við íslensk lög um upplýsingagjöf. Opinber íslensk félög verða að fara að lögum. Manni finnst hart að það sé hægt að haga sér með þessum hætti í krafti þess að vera stór og sterkur aðili og maður skilur að lítil fyrirtæki treysti sér oft ekki til að standa í slíku. Við erum ekki einu sinni farin út í málarekstur tengdan niðurstöðu samkeppninnar heldur snýst þetta bara um gögnin. Kannski voru tilboð annarra betri, við getum ekkert sagt til um það, en af hverju ekki að fá þá gögnin? Það er ekki að sjá á öðru samkvæmt undanförnum úrskurðum en að lögin séu okkar megin.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert