Þarf ekki að borga 27 milljóna yfirdrátt

Landsbankinn
Landsbankinn mbl.is/Hjörtur

Karlmaður sem tók yfirdráttarlán hjá Landsbankanum í byrjun árs 2008 að upphæð 30 milljón japönsk jen þarf ekki að greiða bankanum til baka. Dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur í málinu fyrir helgi. Sagði maðurinn að bankinn hefði neitað honum um að selja hlutabréf í bankanum sjálfum sem voru veð fyrir yfirdráttarláninu þegar hann vildi gera skuldina upp um sumarið 2008.

Landsbankinn fór fram á að maðurinn greiddi 27 milljónir króna vegna skuldarinnar. Sagði maðurinn að um sumarið 2008 hefði verið gert veðkall vegna skuldarinnar. Hefði bankinn ráðlagt honum að selja hlutabréf sem hann átti, en sjálfur vildi hann selja öll hlutabréfin sem hann átti í Landsbankanum og gera skuldina upp. Sagði maðurinn að starfsmenn bankans hefðu mælst eindregið gegn því.

Maðurinn skoraði meðal annars á bankann að leggja fram hljóðritanir af samtölum hans við starfsmenn bankans frá þessum tíma. Byggði hann á því að snúa yrði sönnunarbyrðinni við þar sem bankinn vildi ekki verða við því. Sagði hann bankann hafa nýtt sér aðstæður hans til að gæta að hagsmunum bankans en ekki sín. Þetta hefði verið gróf misnotkun á aðstöðumun og þá hefði hann verið blekktur með rangri ráðgjöf. Sagði hann starfsmenn bankans hafa ýtt honum út í skuldsetningu á forsendum sem hefðu ekki staðist. Hefði bankinn selt bréfin eins og hann vildi sjálfur hefði verið hægt að gera upp allar kröfur bankans.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að fullvíst megi telja að manninum hafi ekki dottið í hug það lánsform sem valið var, þ.e. yfirdráttarlán í jenum. Því verði að telja að starfsmenn bankans hafi ráðlagt honum eins og hann haldi fram.

Segir dómurinn að útskýringar bankans á því af hverju engar upptökur hafi verið lagðar fram séu „fyrirsláttur sem er að engu hafandi“. Hafði bankinn sagt að maðurinn yrði að veita nákvæmari upplýsingar svo hægt væri að finna símtölin.

Því kemst dómurinn að þeirri niðurstöðu að það teljist sannað að maðurinn hafi beðið um að skuld hans yrði gerð upp með sölu verðbréfanna sem voru í vörslu bankans en honum hafi verið ráðlagt að gera ekki.

Þá segir dómurinn að bankinn hafi vísvitandi reynt að koma í veg fyrir lækkun hlutabréfa í bankanum þetta árið: „Alþekkt er nú að á árinu 2008 unnu forsvarsmenn Landsbanka Íslands að því að hindra að hlutabréf í bankanum lækkuðu í verði.  Sú ákvörðun stefnda að selja ekki bréf sín í janúar 2008, heldur að taka lán í formi yfirdráttar, féll að þessum fyrir­ætlunum bankans.  Ekki er neitt upplýst um hvort stefndi hafi haft tekjur í japönskum jenum eða átt peningalegar eignir í þeirri mynt.  Forsendur fyrir þessari ákvörðun hans eru með öllu óútskýrðar,“ segir í dómnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert