Fallið frá áfrýjun í Aserta-máli

Fjórmenningarnir voru sýknaðir í Héraðsdómi Reykjaness í desember 2014.
Fjórmenningarnir voru sýknaðir í Héraðsdómi Reykjaness í desember 2014. mbl.is/Ómar

Ríkissaksóknari hefur ákveðið að falla frá áfrýjun í Aserta málinu svokallaða. Þetta segir Sigríður Friðjónsdótti ríkissaksóknari í skriflegu svari til fréttastofu RÚV.

DV greindi fyrst frá málinu.

Fjórmenningarnir í Aserta-málinu svokallaða voru sýknaðir fyrir Héraðsdómi Reykjaness í desember 2014, en þeir áttu að hafa brotið gegn fjármagnshöftunum með ólögmætum gjaldeyrisviðskiptum.

Málið höfðaði sérstakur saksóknari gegn þeim Karli Löve Jóhannessyni, Gísla Reynissyni, Markúsi Mána Michaelsson Maute og Ólafi Sigmundssyni.

Fjórmenningarnir áttu, í nafni sænska félagsins Aserta AB, gjaldeyrisviðskipti með því að kaupa íslenskar krónur af erlendum fjármálafyrirtækjum fyrir erlendan gjaldeyri sem mótaðilar þeirra höfðu lagt inn á gjaldeyrisreikning á nafni félagsins í banka í Svíþjóð. Hin eiginlegu gjaldeyrisviðskipti fólust í þessu að sögn héraðsdóms. 

„Þau viðskipti fóru ekki fram hér á landi. Sá þáttur í viðskiptum við mótaðilana að flytja krónurnar til Íslands telst til fjármagnshreyfinga í skilningi laga um gjaldeyrismál sem engar teljandi skorður voru reistar við fram til þess að gjaldeyrishöftum var komið á og voru ekki refsiverðar á þeim tíma sem hér skiptir máli,“ sagði í dómi héraðsdóms.

mbl.is