Fjórar veirur í gangi samtímis

Læknar á bráðavakt Landspítalans í Fossvogi.
Læknar á bráðavakt Landspítalans í Fossvogi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Enn er bráðamóttaka Landspítalans þröngt setin þó að nokkuð hafi létt á álaginu frá því fyrir helgi og plássskortur er á lyflækningadeild. Inflúensa heldur áfram að herja á landsmenn en talsvert ber einnig á öðrum öndunarfærasýkingum sem ganga á milli manna.

„Það er mikið af sjúklingum að koma með inflúensulík einkenni og við erum enn að staðfesta aukinn fjölda sjúklinga með influensu en líka með aðrar öndunarfærasýkingar sem eru í gangi,“ segir Jón Magnús Kristjánsson, læknir á bráðamóttöku í samtali við mbl.is.

Ástandið nú segir hann óvenjulegt sökum þess að fjórar öndunarfæraveirur eru í gangi samtímis og álagið á spítalanum mikið samfara því. „Það er inflúensa, RS-vírusinn sem leggst sérstaklega þungt á börn, metapneumovírus sem er eins og RS-vírus fyrir fullorðna og svo parainflúensa sem er n.k. væg útgáfa af inflúensu,“ útskýrir Jón Magnús.

Sú sýking sem mestu máli skiptir fyrir landsmenn er samt sem áður inflúensa, sem Jón segir virðast í meðallagi skæða, en fyrir fólk með veiklað ónæmiskerfi eru hinar veirurnar sömuleiðis mikilvægar.

„Aðalatriðið er áfram það að ef fólk veikist þá leiti það fyrst og fremst til heilsugæslustöðva og læknavaktar til þess að fá staðfestingu á sínum veikindum en ef það er bráðveikt og þarf innlögn þá komi það endilega til okkar á bráðamóttökuna. Fólk á að vera óhrætt við að gera það ef það telur sig þurfa hjálp,“ segir Jón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert