Heppni að sjá Geysi gjósa

Jarðhitagos varð í hver­num Geys­i í Haukadal um þrjú­leytið á laugardag. Hverinn gaus af sjálfsdáðum, sem er ansi sjaldgæf sjón. Algengara er að Strokkur gjósi.

Sjá frétt mbl.is: Geys­ir gaus af sjálfs­dáðum

„Geysir er virkur goshver, þó svo að virkni hans sé mun minni en til dæmis í Strokki,“ segir Sara Barsotti, fagstjóri eldfjallavár hjá Veðurstofunni, í samtali við mbl.is.

Geysir hefur gosið nokkrum sinnum frá aldamótum. Að sögn Hall­dóru Eldon, starfsmanns á Hót­el Geysi, fengu starfs­menn hót­els­ins tvisvar sinn­um fregnir af því síðasta sum­ar af því að hver­inn hefði gosið snemma morg­uns.

„Þar sem virknin er það lítil er ekki hægt að fylgjast með henni með þar til gerðum mælitækjum og því er ekki hægt að spá fyrir um hvenær Geysir muni gjósa,“ segir Sara.

Eina leiðin til að fylgjast með virkninni væri því að fylgjast með hvernum á staðnum eða með vefmyndavélum.

Sara segir að búast megi við því að Geysir muni halda áfram að gjósa öðru hvoru.

„Fólk er mjög heppið ef það sér Geysi gjósa. Samstarfsmaður minn hér á Veðurstofunni er með þeim heppnari, en hann hefur séð hann gjósa tvisvar sinnum.“

Sjálf á Sara eftir að upplifa Geysi gjósa en vonast eftir að verða vitni að því í framtíðinni.

Hverinn Geysir gaus af sjálfsdáðum á laugardag. Virkni hversins er …
Hverinn Geysir gaus af sjálfsdáðum á laugardag. Virkni hversins er lítil og því er erfitt að fylgjast með henni með mælitækjum að sögn Söru Barsotti, fagstjóra eldfjallavár hjá Veðurstofunni, Ljósmynd/Halldóra Eldon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert