Komust ekki á Hjalteyri vegna ófærðar

Ferðamenn við Goðafoss.
Ferðamenn við Goðafoss. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Lögreglan á Akureyri þurfti að koma erlendum ferðamönnum til aðstoðar við Goðafoss um miðnætti en þeir sátu fastir í ófærðinni þar, að sögn varðstjóra í lögreglunni á Akureyri. Mjög hefur snjóað að undanförnu fyrir norðan og allt á kafi í snjó og slæm færð víða.

Eins þurfti sjúkralið að fá aðstoð til þess að sækja sjúkling á Hjalteyri í nótt sem þurfti að komast á sjúkrahús á Akureyri. Ófært var fyrir sjúkrabíl þangað en það var heimamaður á vel útbúnum jeppa sem kom sjúkraflutningamönnum sem og sjúklingnum til bjargar og gat ferjað sjúklinginn yfir í sjúkrabílinn.

Ófært er um Þverárfjall og þæfingsfærð er á nokkrum útvegum á Norðurlandi. Þungfært er um Vatnsskarð og Siglufjarðarveg. Búið er að opna Víkurskarð en þar er þæfingsfærð og skafrenningur. Eins er þæfingsfærð á Grenivíkurvegi og á Ljósavatnsskarði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert