Freista þess að hífa bílinn upp

Kafarar náðu í nótt að koma taug í bifreiðina sem féll í Sporðöldulón við Búðarhálsvirkjun í gær. Var bifreiðin á 6-7 metra dýpi og var hún dregin undir ísnum að stíflugarðinum. Þar verður þess freistað að hífa bifreiðina upp sé þess kostur.

Að sögn Magnús Þórs Gylfasonar, yfirmanns samskiptasviðs Landsvirkjunar, er nú unnið að því að opna vök til að ná bifreiðinni upp. 

Þrír menn voru í gær fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar til Reykjavíkur eftir að jeppabifreið þeirra hafnaði í lóninu. Þeir komust að sjálfsdáðum út úr bílnum og upp á garð við lónið. Einn mannanna var fluttur á sjúkrahús en talið er að hinir hafi ekki þurft á aðhlynningu að halda. Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni í gær var ekki um erlenda ferðamenn að ræða. 

Sjá frétt mbl.is: Höfnuðu í Sporðöldulóni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert