Lést í eldsvoða á Kleppsvegi

Einn maður lést í eldsvoðanum á Kleppsvegi í morgun. Þetta staðfestir lögreglan í samtali við mbl.is. Maðurinn var látinn í íbúð sinni þegar slökkvilið komst inn í íbúðina.

Friðrik Smári Björgvinsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir andlát mannsins, sem var á áttræðis aldri.

Hann var einn í íbúðinni þegar eldurinn kviknaði en unnið er að rannsókn á eldsupptökum. 

Tilkynning barst um eld í íbúð á annarri hæð í fjölbýlishúsi við Kleppsveg 56 klukkan 6:05. Allt tiltækt lið slökkviliðsins var sent á vettvang og gekk greiðlega að slökkva eldinn. Aðrir íbúar í húsinu komust út heilir á höldnu.

Aðeins tveimur tímum síðar barst annað brunaútkall til slökkviliðsins en þar hafði kviknað í kjallaraíbúð að Vesturgötu 13. Greiðlega gekk að slökkva eldinn en mikill reykur var í húsinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert