4 ár á skilorði fyrir fíkniefnabrot

MDMA töflur.
MDMA töflur. mbl.is/Kristinn

Tveir karlmenn á þrítugsaldri voru í dag dæmdir í héraðsdómi í skilorðsbundið fjögurra ára fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa í ágúst árið 2011 flutt inn rúmlega 30 þúsund MDMA töflur frá Danmörku. Höfðu þeir áður verið dæmdir í sex ára fangelsi í héraðsdómi, en Hæstiréttur vísaði málinu til baka í fyrra.

Í ákæru málsins kemur fram að Finnur Snær Guðjónsson hafi fengið Einar örn Adolfsson til verksins og veitt honum leiðbeiningar um ferðatilhögun, greitt fyrir hann kostnað og annað slíkt. Einar fór til Gautaborgar og síðar Kaupmannahafnar þaðan sem hann fór til Amsterdam. Móttók hann fíkniefnin þar og fór síðan til Kaupmannahafnar þaðan sem hann flaug til Keflavíkur. Fundu tollverðir efnin í ferðatösku hans.

Einar Örn viðurkenndi fyrir dómi að hafa tekið að sér að flytja eitt kíló af kókaíni til landsins gegn niðurfellingu skuldar, en hann var aðeins 17 ára gamall þegar brotin voru framin og í mikilli neyslu. Finnur Snær var 19 ára þegar brotið var framið, en hann hefur neitað sök í málinu.

Í dómnum kemur fram að verulegar tafir hafi verið á málinu sem ekki séu raktar til ákærðu. Þá séu báðir mennirnir nú í föstu starfi og í sambúð. Þá eigi Einar Örn barn með eiginkonu sinni sem sé alvarlegt veikt. Telur dómstólinn að í ljósi þeirra tafa sem urðu á málinu rétt að fresta fullnustu refsingar og dæma mennina í skilorðsbundna refsivist.

Var Einar Örn dæmdur til að greiða verjanda sínum 753 þúsund krónur en ríkissjóður 850 þúsund krónur. Finni var gert að greiða 1,6 milljón í málsvarnarlaun verjanda síns, en að öðru leyti verða þau greidd úr ríkissjóði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert