Gæti losað um stíflu

Páll Þórhallsson, sem sést hér fyrir miðju, er formaður stjórnarskrárnefndar.
Páll Þórhallsson, sem sést hér fyrir miðju, er formaður stjórnarskrárnefndar. mbl.is/Kristinn

Tækifæri er til staðar að leiða mikilvægar og umdeildar breytingar á stjórnarskrá til lykta eftir áralangar þrætur. Páll Þórhallsson, formaður stjórnarskrárnefndar, segist telja að þó að umfang breytinganna sé minna en áður var lagt upp með þá geti þær losna um ákveðna stíflu í menningu okkar.

Lagastofnun Háskóla Íslands og Lögfræðingafélag Íslands stóðu fyrir fundi um tillögu stjórnarskrárnefndar að þremur breytingum á stjórnarskrá sem voru lagðar fram á föstudag í Háskóla Íslands í dag.

Páll sagði að eitt leiðarljós nefndarinnar hafi verið breið samstaða og það hafi verið töluverður áfangi að ná henni um að leggja fram þessar þrjár breytingar sem varða náttúruvernd, auðlindir í þjóðareign og þjóðaratkvæðagreiðslur að frumkvæði kjósenda.

Ef allt gangi að óskum væri hægt að leggja frumvörpin fram á þingi fyrir páska og samþykkja fyrir sumarið. Þá gæti þjóðaratkvæðagreiðsla um þau farið fram í fyrsta lagi í desember á þessu ári en síðasta lagi mars á því næsta. Ýmsar pólitískar hliðar séu á tímasetningu þjóðaratkvæðagreiðslu, meðal annars vegna sjónarmiða um hvernig hægt sé að tryggja kjörsóknina sem til þarf. Hugmyndir um að halda hana samhliða forseta- eða þingkosningum hafi ekki verið öllum að skapi.

Lýðræðislegra að bera fram í þremur hlutum

Tillögurnar eru lagðar fram í þremur frumvörpum og sagði Páll ástæðuna þá að það hafi verið talið lýðræðislegra. Þar með hefðu kjósendur meira val. Þannig gætu þeir sem væru sammála ákvæðum um náttúruvernd en hugnaðist illa breytingar á fyrirkomulagi þjóðaratkvæðagreiðslna greitt atkvæði með annarri tillögunni en gegn hinni.

Um ákvæðið um náttúruvernd sagði Páll að það væri fyrst og fremst stefnuyfirlýsing en bein réttaráhrif ákvæðisins yrðu fremur veik. Nefndin hafi staldrað mest við almannaréttinn og hvernig ætti að útfæra hann. Þetta yrði í fyrsta skipti sem honum yrði veitt stjórnarskrárvernd. Aukinn ferðamannastraumur til landsins hafi verið nefndarmönnum efni til vangaveltna og hvort takmarka þyrfti almannaréttinn til að gera stýrt straumi ferðamanna um landið.

Náttúruauðlindaákvæðið byggi á langri sögu tillagna og fræðilegrar umræðu. Það fjalli um auðlindir almennt og þar sé lögð eignarréttarleg merking í hugtakið þjóðareign. Með ákvæðinu sé hnykkt á svigrúmi löggjafans til auðlindarstýringar og slegið sé á væntingar um að tímabundnar heimildir eins og kvóti leiði til varanlegs eignarréttar.

Bætist við málskotsrétt forsetans

Mestur tími nefndarinnar fór í að útfæra ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur af ýmsum ástæðum, meðal annars vegna þess hversu víðtæk áhrif það gæti haft á stjórnskipun landsins. Pál sagði að hér væri um að ræða um sjálft fulltrúalýðræðið og grundvöll þess.

Ákvæðið eigi að koma til viðbótar við málskotsrétt forseta þar sem ekki var talið rétt að taka það vald af honum án þess að fjalla heildstætt um hlutverk forsetans. Tillagar stjórnarskrárnefndar gerir ráð fyrir að 15% kosningabærra manna geti krafist þess að nýstaðfest lög frá Alþingi verði borin undir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Páll sagði að ýmsar áskoranir hafi verið fyrir nefndarmennina í störfum þeirra, þar á meðal vantraust á stjórnmálamönnum og stjórnsýslunni en einnig væru margir ósáttir eftir átök síðustu ára um stjórnarskrárbreytingar.

„Það var áskorun að vinna úr þeirri stöðu og fá sem flesta til að sættast á að umbætur komi fram í hægari skrefum en ella,“ sagði Páll.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert