Innköllun Snickers og Mars nær til Íslands

Að sögn Gunnars er um að ræða sex mismunandi stærðir …
Að sögn Gunnars er um að ræða sex mismunandi stærðir af Mars og Snickers. AFP

Ekki er enn vitað hversu mikil áhrif innköllun súkkulaðiframleiðandans Mars mun hafa hér á landi. Gunnar Grétar Gunnarsson, deildarstjóri innflutningsdeildar hjá SS, segir í samtali við mbl.is að verið sé að athuga dagsetningar þeirra vara sem fyrirtækið hefur selt til smásala.

Í tilkynningu frá Mars í gær sagði að innköllunin, sem væri viljafrjáls, næði til 55 landa. Til nánari upplýsinga um löndin var vísað í lista á heimasíðu fyrirtækisins, Mars.de, sem lá niðri í allan gærdag. Erfitt hefur því verið að nálgast upplýsingar um hvort hún nái til vara í smásölu á Íslandi.

Vörurnar á leið til landsins

Sláturfélag Suðurlands flytur inn vörur frá Mars til Íslands. Gunnar segir að Sláturfélagið hafi ekki fengið upplýsingar frá framleiðandanum fyrr en seint í nótt.

„Það var óheppilegt hvernig þetta þróaðist, að við fengum ekki upplýsingar um þetta áður en þetta var tilkynnt úti,“ segir Gunnar og bætir við að um sé að ræða sex vörur, eða það er að segja sex mismunandi stærðir af Mars og Snickers.

„Flest bendir til þess að vörurnar séu annars vegar í sendingu sem er á leiðinni til okkar og hins vegar í birgðastaflanum okkar í vöruhúsinu, svo þær vörur eru ekki farnar í umferð og við munum ekki láta þær í umferð,“ segir Gunnar og bætir við að áhrifin hér á landi séu því ekki eins mikil og sést hafa erlendis.

Frá verksmiðju súkkulaðiframleiðandans.
Frá verksmiðju súkkulaðiframleiðandans. AFP

Hefur líklega ekki áhrif á framboðið

„Núna erum við að athuga hvaða dagsetningar fóru í hvaða búðir og það ferli mun taka einhvern tíma, en við munum ganga rösklega til verks,“ segir Gunnar. „Þó að í tilkynningunni segi að þetta sé viljafrjáls innköllun þá gerum við þetta bara á þann máta að varan verður tekin úr umferð.“

Þá segir hann innköllunina líklega ekki munu hafa áhrif á framboðið hér á landi. „Þetta eru bara ákveðnir stimplar sem koma til greina.“

Ákveðið var að innkalla vörurnar eft­ir að rauður plast­biti fannst í einu súkkulaðistykki í Þýskalandi. Var það keypt þann 8. janúar að því er danska rík­is­út­varpið greinir frá.

„Við erum að rann­saka hvað gerðist og við get­um ekki verið ör­ugg um að rautt plast finn­ist ekki í ann­arri vöru," sagði El­ine Bijveld talsmaður Mars í Hollandi. Vörurnar voru allar fram­leiddar í verk­smiðju í bæn­um Veg­hel í Suður-Hollandi, sam­kvæmt hol­lensku frétta­stof­unni ANP.

Innkallaðar verða sæl­gætis­teg­und­irn­ar Mars, Snickers, Mil­ky Way og Celebrati­ons, sem merkt­ar eru best­ar fyr­ir dag­setn­ing­ar frá 19. júní 2016 til 8. janú­ar 2017.

Fréttir mbl.is:

Mars og Snickers innkallað í 55 löndum

Innkalla bæði Snickers og Mars

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert