Beingreiðsla við fyrstu íbúðarkaup

Húsnæðis- og leigumarkaðurinn hefur mikið verið í umræðunni síðustu misseri. …
Húsnæðis- og leigumarkaðurinn hefur mikið verið í umræðunni síðustu misseri. Ragnar Árnason telur rétt að skoða nýja hugmynd sem byggir á því að ríkið eða einkamarkaðurinn leggi til eiginfjárframlag við fyrstu kaup gegn eignarhluta í eigninni. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Í staðin fyrir opinbert aðstoðarkerfi til fyrstu íbúðakaupa með lánafyrirgreiðslu fyrir milligöngu Íbúðalánasjóðs ætti ríkissjóður að leggja til beint framlag til kaupverðs gegn eignarhluta í húsnæðinu. Þetta myndi auðvelda fólki að yfirstíga fjármögnunarþröskuld við fyrstu kaup og jafnframt minnka greiðslubyrgði af slíkum kaupum. Þá torveldar þetta ekki síðari húsnæðiskaup og ætti leiðin að kosta ríkissjóð svipað og núverandi fyrirkomulag. Þetta er meðal þess sem hagfræðiprófessorinn Ragnar Árnason fjallar um í fyrirlestri sínum á morgun á Fasteignaráðstefnunni í Hörpu.

Auðveldar íbúðakaupa og minnkar umfang leigumarkaðarins

Ragnar segir fyrirkomulag sem þetta gera fólki mun auðveldara að eignast sitt fyrsta húsnæði. Þannig geti þetta nýja kerfi hjálpað til við að minnka umfang leigumarkaðarins sem hann segir þjóðhagslega óhagkvæmari en eign á húsnæði. Þá segir hann hugmyndina ekki að hafa áhrif á vaxtabótakerfið að öðru leyti en að beingreiðslan lækki þörf á lánsfé sem gæti að einhverju leyti dregið úr vaxtabótum.

3 milljónir á hvern einstakling

Hugmynd Ragnars gengur út á að hver einstaklingur gæti fengið sem svarar 3 milljónum (6 milljónir fyrir sambúðarfólk) og nýtt það fjármagn sem innáborgun á fyrstu íbúðarkaup. Ríkið fengi á móti eignarhlut sem nemur þessari innáborgun, en veðheimild væri veitt af hálfu fjármögnunaraðilans. Ragnar segir að reyndar gæti þetta fyrirkomulag líka gengið upp fyrir einkaaðila sem myndu sjá tækifæri í að fjármagna þessi kaup.

Segir hann að þannig geti einkaaðilar bæði sett á einfaldan hátt fjármuni í íbúðafjárfestingu sem alla jafna hefur skilað meiri fjárfestingu en verðbólga og svo gæti þetta verið eitthvað sem lánastofnanir myndu bjóða sem hluta af lánafjármögnun sinni.

Ragnar Árnason, hagfræðiprófessor.
Ragnar Árnason, hagfræðiprófessor. Eggert Jóhannesson

Gæti dugað fyrir útborgun á 20 milljóna íbúð

Sem dæmi segir Ragnar að ef par væri að kaupa íbúð fyrir 20 milljónir gæti það fengið 6 milljóna innáborgun frá ríki eða einkaaðila. Á móti væri sá hlutur í eigu þess sem fjármagnar, en parið þyrfti bara að fjármagna 14 milljónir með bæði láni og eigin fjármögnun. Ef miðað er við 70% fjármögnun fjármálastofnana gæti þessi leið því farið langt með láta fólk með lítil fjárráð til að koma þaki yfir höfuðið.

Þegar eignin væri seld seinna meir fengi svo fjárfestirinn sinn hluta söluverðsins til baka og mismunurinn væri ávöxtun yfir tímabilið.

Lækkun leiguverð og hækkun íbúðaverðs til skamms tíma

Aðspurður hvort hann telji þetta geta haft ruðningsáhrif á fasteignamarkaðinum segir Ragnar að þetta kerfi myndi væntanlega draga úr eftirspurn á leigumarkaði en auka eftirspurn á eignamarkaði. Þetta gæti þýtt lækkun leiguverðs og hækkun íbúðaverðs til skamms tíma, en til lengri tíma megi gera ráð fyrir að hvort tveggja verði í samræmi við byggingar- og endurnýjunarkostnað.

Segir Ragnar að innleiðingarferli svona kerfis þyrfti ekki að vera meira en eitt ár frá ákvörðun, þótt raunhæfara væri væntanlega að miða við 2-3 ár.

Á ráðstefnunni á morgun ætlar Ragnar að fara nánar yfir þessar hugmyndir og meðal annars setja fram útreikninga á kostnaði og samanburði við núverandi kerfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert