Sendi 15 ára stúlku mynd af getnaðarlim sínum

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðisbrot og brot gegn barnaverndarlögum. Í júlí 2014 átti maðurinn í samskiptum við 15 ára stúlku í gegnu smáforritið Snapchat og sendi henni tvisvar mynd af getnaðarlim sínum. Sendi hann einnig stúlkunni skilaboð þar sem stóð „send þú“ og var hann með þeirri háttsemi að hvetja stúlkuna til að senda sér kynferðislega mynd af henni.

Maðurinn starfaði þar sem stúlkan var nemandi. Hún hafði sagt honum að hún hefði fengið sér lokk í geirvörtuna og bað hann hana um að senda sér mynd af því sem hún gerði. Þá sendi maðurinn henni þriggja sekúndna myndskeið af typpinu á sér. Í dómi héraðsdóms segir að myndskeiðið hafi verið oft stutt til að stúlkan hefði getað tekið myndina upp og því hefði hún beðið hann að senda lengra myndskeið. Hafi ákærði gert það og stúlkan afritað myndina. Í dómi héraðsdóms kemur fram að það sjáist greinilega á myndskeiðinu hvað ákærði hafi verið að senda og svo segi hann „send þú“ en þá lokaði stúlkan á samskipti við ákærða á Facebook.

Maðurinn játaði fyrir dómi að hafa sent stúlkunni tvisvar sinnum mynd af getnaðarlim sínum en neitaði því að hafa sent orðin „send þú“ til stúlkunnar eða hvatt hana til að senda sér kynferðislega mynd af henni. Sagðist hann kannast við að hafa sent brotaþola textaskilaboð, en sagðist ekki muna hvað stóð í þeim, en það hefði verið eitthvert spjall.

Foreldrar stúlkunnar báru vitni fyrir dómi. Faðir hennar greindi frá því að dóttir hans hefði sagt honum frá óviðeigandi myndsendingum af kynfærum á Snapchat og textaskilaboðum að því er vitnið minnti. Myndsendingin hafi verið vistuð í tölvu stúlkunnar og var hún lögð fram með kærunni hjá lögreglu. Faðir stúlkunnar sagði að hún hefði sagt sér að ákærði hafi sent brotaþola mynd af kynfærum sínum og óskað eftir því að fá senda mynd af henni til baka. Greindi faðir stúlkunnar frá því að henni hefði liðið illa út af atvikinu.

Móðir stúlkunnar hafði sömu sögu að segja en sá hún einnig textaskilaboð þar sem ákærði hefði beðið stúlkuna afsökunar. Hún sagði jafnframt að líðan stúlkunnar hefði verið ömurleg eftir atvikið, en það hefðu orðið framfarir. Hún væri haldin kvíða sem væri mismunandi eftir dögum. 

Í dómnum kemur fram að þó svo að ekki liggi fyrir í málinu nein gögn um afleiðingar brotsins gagnvart stúlkunni. „Það breytir því á hinn bóginn ekki að verknaður af því tagi sem um ræðir er ávallt til þess fallinn að hafa áhrif á andlega heilsu þess sem fyrir honum verður.

Eins og fyrr segir var maðurinn dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. Þá var hann einnig gert að greiða stúlkunni 250.000 krónur í miskabætur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert